151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

utanríkisviðskiptastefna Íslands, munnleg skýrsla utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. - Ein umræða.

[15:46]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna um leið og ég tek undir með hæstv. forseta að hún mætti gjarnan vera lengri. Ég þakka sérstaklega fyrir þessa skýrslu sem er hin læsilegasta sem ég hef séð mjög lengi innan úr kerfinu. Það eru örfá atriði sem ég vil stikla á í þessari örstuttu ræðu og hugur minn horfir svolítið til austurs, ég viðurkenni það, þ.e. til Asíu, og er ánægður með þær áherslur sem koma fram. Eins og hér kemur fram og mörgum okkar er kunnugt eru Evrópubúar 6% af íbúum heimsins. Það er því algjör fásinna að ætla að bindast þeim heimshluta sérstökum böndum umfram aðra. Við Miðflokksfólkið erum náttúrlega alþjóðasinnar eins og allir vita og við viljum eiga viðskipti við ríki úti um allan heim.

Það eru örfá atriði varðandi Asíu sem mig langar að forvitnast um hjá hæstv. ráðherra. Það er þá einkum hvað varðar flug, þ.e. lendingarsamningar eða slíkt sem voru komnir á við Kína. Ég man ekki hvernig staðan var gagnvart Japan, ég hefði viljað fá útskýringu á því, fyrir utan það að miklu fleiri lönd eru þarna en þessi tvö, þó að Japan og Kína séu náttúrlega mjög mikilvæg. Ég man ekki hvað mörg ár eru síðan, það eru líklega orðin tíu ár, jafnvel fleiri, að mér var sagt að milljónirnar í dollurum í Kína væru jafn margar og öll franska þjóðin, þannig að millistéttin í Kína er væntanlega að verða stærsta millistétt heimsins. Við eigum náttúrlega að sjá þar tækifæri og þau sjást hér örugglega. Ég hefði kannski viljað fá ögn um það frá hæstv. ráðherra.

Það er líka annað sem ég hefði viljað stinga hér inn og ég sakna svolítið í skýrslunni, það eru tengsl okkar við Kanada, hvar við eigum náttúrlega væntanlega flesta frændur í heiminum. Fyrir um tveimur, þremur, fjórum árum þegar ég var staddur vestra varð ég var við að mikill áhugi var Kanadamegin frá á auknum viðskiptum við Ísland.

Mig langar til að fá útlistun á því frá hæstv. ráðherra hvort eitthvað hafi þróast í þeim málum því að mér finnst það ekki koma fram í skýrslunni. Mér þætti vænt um að fá fréttir af því. En að öðru leyti endurtek ég ánægju mína með skýrsluna og óánægju mína, líkt og hæstv. forseti, með mjög stuttan ræðutíma.