151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

norrænt samstarf 2020.

497. mál
[16:12]
Horfa

Frsm. ÍNR (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Fyrir þinginu liggur skýrsla Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2020. Það má með sanni segja að árið 2020 hafi verið undarlegasta ár í starfi Norðurlandaráðs hingað til. Vonandi fáum við ekki fleiri svona ár en þó má horfa á þessa reynslu jákvæðum augum. Norðurlandaráð, bæði starfsfólk og þingmenn sem eiga sæti í ráðinu, gerði töluvert miklar breytingar á starfsháttum sínum á árinu til að bregðast við ástandinu. Starf ráðsins var mjög öflugt og var jafnvel að sumu leyti virkara en oft áður. Við héldum réttum takti allt árið og oft var aukafundum komið á með skömmum fyrirvara. Það hefðum við t.d. ekki getað gert hefðum við þurft að skipuleggja fundi í öðrum löndum og gera ráð fyrir ferðatíma og alls kyns kostnaði sem til fellur. Þetta gerði sveigjanleika ráðsins meiri. Við gátum brugðist hratt við aðstæðum sem upp komu hverju sinni og að sjálfsögðu nýttum við okkur fjarfundatæknina. Norðurlandaráð býður upp á túlkanir á fundum sínum og slíkt hið sama þurfti að gera á þessum fjarfundum. Starfsfólk ráðsins var mjög lausnamiðað í því að finna leiðir til að nýta tæknina. Við þurftum t.d. að vera með atkvæðagreiðslukerfi í kerfunum okkar og túlkanakerfi sem hentaði túlkum og virkaði vel.

Auðvitað var þetta svolítið brotakennt til að byrja með, við náðum ekkert endilega alltaf að afgreiða allt sem við ætluðum að afgreiða og ýmislegt gekk á. En við lærðum af þessu öllu saman og fljótlega fóru fundirnir að ganga mjög vel. Ég held að ég geti alveg fullyrt það. Það var að mörgu leyti gaman að taka þátt í þessu og eiga hlut í þeim áskorunum og svo lausnum sem við fundum í þessu ástandi. Ég er viss um að Norðurlandaráð á eftir að búa að þessari reynslu og taka kannski að hluta til eitthvað frá henni með sér inn í framtíðina. Norðurlandaráð, eins og Alþingi og margir, er að horfa til grænna lausna í starfi sínu. Það að þurfa ekki að ferðast stöðugt á milli landa með tilheyrandi kostnaði og kolefnisspori er kostur og við sáum það nú að það er vel gerlegt. Ég er nokkuð viss um að við hefðum ekkert endilega náð þessum áfanga á svona stuttum tíma hefði Covid-faraldurinn ekki komið til. Við eigum alltaf að horfa á björtu hliðarnar en auðvitað hefur verið svolítið skrýtið að sitja heima, inni í herbergi, meira og minna allt árið í stað þess að hitta fólk og eiga þau óformlegu samskipti sem eru auðvitað nauðsynleg líka svona í og með. Við sjáum á þessu að auðvitað getum við nýtt tæknina meira en verið hefur en við þurfum líka að hittast reglulega og tengjast og gleðjast. Það er partur af alþjóðastarfi líka og auðvitað öllu öðru félagsstarfi.

Ég ætla ekki að þylja upp úr þessari skýrslu. Hún liggur fyrir á vef Alþingis og er aðgengileg þar ef fólk vill fara nákvæmlega yfir hana. En ég ætla að grípa niður í nokkur atriði úr skýrslunni. Hér er t.d. fjallað um hvað Norðurlandaráð er, hvaða nefndir eru starfandi innan ráðsins og hverjir eiga sæti í Íslandsdeildinni o.s.frv. Áður en Covid-faraldurinn skall á fór ég ásamt varaforseta Norðurlandaráðs og varaformanni Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, í heimsókn til Skotlands og frá þeirri heimsókn er sagt í skýrslunni. Við fórum að mig minnir í mars 2020 — eða hvenær var það nú? Ég er ekki búin að merkja sérstaklega við það, sýnist mér, ég var að fara yfir þetta í gær. Alla vega var það snemma á síðasta ári sem við náðum að komast til Skotlands í boði forseta skoska þingsins. Þessi heimsókn var að frumkvæði skoska þingsins og hún var mjög góð. Við heimsóttum forsetann og áttum með honum fundi og einnig áttum við formlega fundi með þingmönnum. Það er skýr vilji í skoska þinginu fyrir nánara samstarfi við Norðurlandaráð. Auðvitað er margt að gerast bara þessa mánuðina, vikurnar og dagana og hlutirnir breytast hratt. Þarna var ákveðinn gluggi opnaður og áhugavert verður að fylgjast með þróuninni hjá vinum okkar hér austan við okkur, Skotum og Bretum, og hvernig þetta þróast allt saman. Norðurlandaráð er og verður í mjög nánu samstarfi við breska þingið og auðvitað viljum við líka halda áfram að rækta tengsl okkar við Skota og aðra þá sem áhuga hafa á að rækta samskipti við Norðurlandaráð. Þessi ferð var farin 30. janúar sé ég hér í gögnunum.

Í skýrslunni er getið um alþjóðastarf og fleiri ferðir sem farnar voru. Ég fór sem fulltrúi Norðurlandaráðs ásamt Michael Tetzschner, norskum þingmanni, og Erkki Tuomioja, finnskum þingmanni, í heimsókn til pólska þingsins að frumkvæði Pólverja. Við hittum þar fyrir forseta öldungadeildarinnar, Tomasz Grodzki, sem er þingmaður stjórnarandstöðunnar. Það er margt að gerast í Póllandi og ýmsar breytingar, sumar hverjar algjörlega á skjön við grunngildi Norðurlandaráðs sem snúa að mannréttindum, lýðræði og gildum réttarríkisins. Þetta var mikilvæg heimsókn. Það var gott að Norðurlandaráð fór þangað í formlega heimsókn til að senda kannski ákveðin skilaboð líka. Við eigum eftir að sjá hvort framhald verður á nánum samskiptum en það er mikill vilji í Póllandi fyrir meiri samskiptum við Norðurlandaráð, alla vega hjá ákveðnum hópi sem tilheyrir þá frekar stjórnarandstöðunni.

Norðurlandaráð hefur um árabil verið í mjög nánu samstarfi við Eystrasaltsþingið og fulltrúar Norðurlandaráðs taka þátt í þingum Eystrasaltsríkjanna sem eru haldin reglulega. Hið sama gildir um Benelux-þingið. Þar voru nokkrir fundir haldnir á árinu og í fyrsta sinn var þríhliða fundur haldinn, þ.e. með fulltrúum Eystrasaltsþingsins, Benelux-landanna og Norðurlandaráðs. Sú sem hér stendur og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir voru meðal þátttakenda. Umræður á þeim fundi voru um Covid-faraldurinn og málefni Hvíta-Rússlands. Sú umræða tók töluvert mikið pláss á síðasta ári, þ.e. um málefni Hvíta-Rússlands sérstaklega. Ekki er heldur útséð með hver þróunin verður á því svæði. Við fulltrúar Norðurlandaráðs áttum fundi með fulltrúa stjórnarandstöðunnar og leiðtoga þeirra, Svetlönu Tíkhanovskaju, bæði starfshópurinn sem vinnur að málefnum Hvíta-Rússlands og nokkrir fulltrúar sem áttu sérstakan fund. Ég man ekki alveg hvenær hann var. Þetta er töluvert löng skýrsla þannig að ég ætla ekki að fara að eltast við dagsetningar. En þarna hefur verið gott samtal í gangi og góð upplýsingagjöf til fulltrúa Norðurlandaráðs allt árið. Þessir fundir með leiðtoga stjórnarandstöðunnar hafa verið mjög góðir, opnir og einlægir og það ríkir mikið traust á milli aðila.

Mig langaði til að vekja sérstaka athygli á samfélagsöryggi og þá í tengslum við Covid-faraldurinn. Ég ætla að lesa aðeins upp úr skýrslunni, með leyfi forseta. Ég sé að ég á níu mínútur eftir.

„Málefni tengd samfélagsöryggi hafa lengi verið til umræðu á vettvangi Norðurlandaráðs og ýmsar tillögur um eflingu norræns samstarfs á þessu sviði hafa verið lagðar fram. Haustið 2018 ákvað Norðurlandaráð að leggja enn meiri áhersla á þetta svið með því að skipa vinnuhóp til að móta sameiginlega stefnu um samfélagsöryggi. Oddný G. Harðardóttir átti sæti í þeim hópi. Vinnuhópurinn skilaði drögum að stefnu sumarið 2019 og endanleg útgáfa var síðan samþykkt á Norðurlandaráðsþingi í Stokkhólmi um haustið.

Í stefnunni er meðal annars hvatt til aukins samstarfs Norðurlanda á sviði heilbrigðismála og bent er á heimsfaraldra sem eina af þeim ógnum sem steðja að Norðurlöndum.“ — Þetta var eins og fyrr segir áður en Covid-faraldurinn braust út. — „Sérstaklega er tekið fram að samræma þurfi aðgerðir Norðurlanda til að tryggja framboð á mikilvægum lyfjum og öðrum búnaði til lækninga. Í stefnunni eru einnig tillögur sem miða að því að efla samstarf landanna í friðar-, netöryggis- og löggæslumálum, um matvæla- og orkudreifingu, almannavarnir og björgunarsveitir og um varnir gegn efna-, sýkla-, geisla- og kjarnavopnum.

Í janúar 2020 samþykkti forsætisnefnd Norðurlandaráðs að senda ríkisstjórnum landanna stefnuna. Jafnframt var óskað eftir ítarlegum svörum um það hvort og hvernig ríkisstjórnirnar og Norræna ráðherranefndin hygðust fara að tillögunum og beðið var um ítarlegan rökstuðning í þeim tilvikum þar sem ákveðið væri að gera það ekki.

Í apríl þegar Norðurlönd voru, eins og heimsbyggðin öll, að glíma við Covid-19 faraldurinn ákvað Norðurlandaráð að frumkvæði íslensku formennskunnar að fylgja tillögunum eftir með því að senda forsætisráðherrum Norðurlanda bréf. Norðurlandaráð ítrekaði í bréfinu mikilvægi þess að farið yrði að tillögunum í stefnunni um samfélagsöryggi en jafnframt voru í því nýjar tillögur og ábendingar. Löndin voru hvött til að hjálpa hvert öðru eftir þörfum, svo sem með lækningabúnaði og heilbrigðisstarfsfólki í samræmi við norræna samninga og fyrri yfirlýsingu þess efnis og að skoða hvort hægt væri að samræma viðbrögð við faröldrum til framtíðar þannig að ráðstafanir landanna leiddu ekki til nýrra stjórnsýsluhindrana milli þeirra. Einnig var óskað eftir því að ríkisstjórnirnar samræmdu aðgerðir sem miða að því að endurreisa og styrkja efnahag landanna í kjölfar faraldursins og að í þeim aðgerðum yrði lögð áherslu á græna og sjálfbæra þróun og tillit yrði tekið til viðkvæmra samfélagshópa. Að lokum voru ríkisstjórnirnar hvattar til þess að efla alþjóðlegt samstarf og að auka norræna samhæfingu í stofnunum á borð við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og í Evrópusambandinu.

Svör ríkisstjórna Norðurlanda bárust í júní. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs ákvað á fundi sínum 19. ágúst að fela starfshópi nefndarinnar sem mótað hafði stefnuna á sínum tíma að fara yfir svörin. Jafnframt var ákveðið að kalla ráðherrana til samráðs um þau. Starfshópurinn skilaði áliti sínu fyrir fund forsætisnefndar 18. september og samþykkt var að leggja það til grundvallar fyrir fundina með ráðherrunum. Starfshópurinn taldi að ríkisstjórnirnar hefðu svarað sumum spurningum með fullnægjandi hætti en í öðrum tilvikum hefðu svörin verið óskýr eða rökstuðning vantað fyrir að fara ekki að tillögum Norðurlandaráðs.

Samráð með ráðherrunum fór fram með fjarfundarfyrirkomulagi dagana 27. og 28. október. Fundað var með forsætis-, samstarfs-, utanríkis- og varnarmálaráðherrum og ráðherrum viðbúnaðarmála. Nánast allir ráðherrar þessara málaflokka komu til fundar við forsætisnefnd Norðurlandaráðs og ræddu svör við spurningum sem féllu undir þeirra verksvið.

Fundirnir voru lokaðir en á þeim öllum kom fram skýr og greinilegur munur á mati ráðherranna annars vegar og Norðurlandaráðs hins vegar á norrænu samstarfi í tengslum við Covid-19 faraldrinum og þörfina á breytingu og eflingu samstarfs um samfélagsöryggi. Þingmenn forsætisnefndar Norðurlandaráðs töldu að löndin hefðu ekki haft nægilegt samráð um aðgerðir vegna faraldursins og að lokanir landamæra og ýmsar aðrar ráðstafanir hefðu haft neikvæðar afleiðingar fyrir samstarfið og fyrir Norðurlandabúa, sérstaklega íbúa á landamærasvæðum og aðra sem þurfa af ýmsum ástæðum að fara milli landanna. Silja Dögg Gunnarsdóttir áréttaði að með þessu hefðu yfirvöld brugðist íbúum landanna og fleiri tóku undir það. Þingmenn gagnrýndu ráðherrana fyrir að sýna ekki nægilegan metnað í samstarfinu á þessu sviði og bentu á að verulegra umbóta væri þörf á mörgum sviðum samfélagsöryggis. Ýmsir ráðherranna sögðu á móti á að þeir hefðu fundað títt og skipst á upplýsingum eftir að faraldurinn brast á og að samstarfið hefði í heildina gengið vel. Ýmsir þeirra bentu á sameiginlegt átak um heimflutning norrænna ríkisborgara frá öðrum löndum í upphafi faraldursins sem dæmi um vel heppnað samstarf.“

Það má vel taka undir það. Norðurlöndin stóðu sig mjög vel í samstarfinu þegar flytja átti norræna ríkisborgara til síns heima á sínum tíma. Engu að síður má draga þá ályktun af því sem gerst hefur á síðasta ári í kjölfar faraldursins að samstarf Norðurlandanna sé ekki nógu þétt. Við höfum auðvitað kafað dýpra í þetta í Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Eins og margir hafa bent á og við vitum svo sem líka þá er náttúrlega mismunandi umhverfi á Norðurlöndunum, hlutverk stofnana er ólíkt á milli ríkja, einnig umgjörð og heimildir stofnana, löggjöf sem snýr að þeim stofnunum og annað þess háttar. Sveigjanleikinn er því ekkert endilega mikill og verkefnin hólfast niður hingað og þangað. Til að bregðast við hratt og örugglega og samhæfa viðbrögð Norðurlandanna þá vantar kannski meira einn kanal frá hverju ríki. Nú þarf oft að glíma við það að fara eftir mörgum kanölum til að bregðast við því sem er að gerast. Þetta er náttúrlega flókið en þetta er verkefni sem fólk þarf að vera meðvitað um. Við þurfum að fara að huga að og skoða og finna leiðir til að einfalda viðbrögð við ógnum eins og faröldrum. Það á auðvitað einnig við um náttúruhamfarir og styrjaldir og alls kyns hluti sem geta ógnað íbúum á Norðurlöndum.

Ég hef hér farið örlítið yfir og stiklað á stóru varðandi alþjóðasamstarfið. Það er náttúrlega margt fleira hér inni. Það er kannski gaman að segja frá því — eða það er kannski ekki gaman að segja frá því en þingi Norðurlandaráðs, sem halda átti í október á Íslandi, var aflýst í fyrsta sinn í sögu Norðurlandaráðs. Það sem er þó kannski gaman er að við héldum ekki formlegt þing en við héldum fjölmarga fundi, m.a. með aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, þar sem við ræddum m.a. loftslagsmál, Covid-faraldurinn, bóluefnin, ábyrgð okkar hér á Norðurlöndum og margt fleira. Það var gríðarlega góður fundur. Allir forsætisráðherrar Norðurlandanna tóku þátt í þeim fundi. Það er einn kostur við þessa fjarfundi að miklu auðveldara er að fá góða mætingu frá ráðherrum. Við höfum stundum kvartað yfir því í Norðurlandaráði að ráðherrar hafi ekki gefið sér tíma til að ferðast á milli og sækja fundi, að þeir hafi forgangsraðað dagskrá sinni öðruvísi. Með því að halda fjarfundi er kannski líklegra að menn gefi sér tíma til að funda með Norðurlandaráði. Ég myndi segja að þetta hafi allt heppnast mjög vel þarna hjá okkur í október. Það var góð mæting og góðar umræður og við lögðum áherslu á samfélagsöryggi, eins og fyrr segir.

En að lokum, hæstv. forseti, voru verðlaun Norðurlandaráðs náttúrlega afhent eins og hefð er fyrir. Okkur fannst leiðinlegt að geta ekki haldið glæsilega athöfn í Hörpu eins og við höfðum ætlað að gera en RÚV sjónvarpaði þessu á mjög góðum tíma. Ég held að við höfum náð að vekja athygli á norrænni menningu, norrænum listamönnum, fólki í nýsköpun og öðru með því að gera þetta með þessum hætti. (Forseti hringir.) Til þess er kannski leikurinn gerður, að beina sjónum að okkar frábæra skapandi fólki sem er okkur leiðarljós til framtíðar við úrlausn fjölmargra verkefna.