151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[19:20]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kem hérna á hlaupum til að veita andsvar þessum ágæta hv. þingmanni en það er eins og að vera í lögfræði 101 að hlusta á ræður hans í dag. Hv. þingmaður hefur rætt hér mikið um auðlindagjald o.s.frv. Mér verður hugsað til 2013 þegar öðruvísi stjórnarmynstur var og þá var lagt fram frumvarp um breytt veiðigjald gegn háværum mótmælum Vinstri grænna á þeim tíma. Það gekk út á að þeir stærstu í faginu, tíu stærstu fyrirtækin, borguðu 75% af auðlindagjaldinu eða veiðigjaldinu og síðan minna. En svo var eins og blessuð skepnan skildi og Vinstri grænir lögðu fram frumvarp sem var alveg eins árið 2017, ef ég man rétt, þannig að það fer nú svolítið eftir vindum líka hvernig þetta er.

En ég hef staldrað við það sem hv. þingmaður hefur sagt um þennan einfaldleika í stjórnarskránni. Hér kom fyrir í dag orðtak um tíðaranda, að stjórnarskráin ætti að taka eitthvert mið af tíðaranda. Ég fór að hugsa með mér, af því að ég er orðinn svona gamall, að líklega höfum við og stjórnarskráin misst af einhverjum uppfærslum árið 1964, 1974, 1984, ef tíðarandinn hefði átt að spila einhverja rullu þarna. Þannig að mig langar að biðja hv. þingmann að gera aðeins gleggri grein fyrir ókostunum við að festa auðlindir og auðlindagjald í stjórnarskrá og hvernig það flækir málin fyrir okkur.