151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:44]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hvet hv. þingmann til þess að fletta upp ræðum samflokksmanna sinna um þessa samþykkt á sínum tíma. Henni var mótmælt mjög harkalega, að vísu grundvallað á misskilningi og bábiljum og þvættingi eins og von var og vísa. Ég spyr hér vegna þess að hv. þingmaður fór inn á muninn á óskipulagðri för, eins og hælisleitendakerfið er að miklu leyti, þar er fólk á veginum að leita sér að skjóli, og skipulögðu kerfi frá Sameinuðu þjóðunum og virtist hv. þingmaður vera hlynntur skipulagða kerfinu. Það vakti athygli mína út af andstöðu þingmanna Miðflokksins við það góða mál sem er samþykkt Sameinuðu þjóðanna, kölluð Marrakesh-samþykktin.

Það vekur líka athygli mína að þegar ég les þetta mál þá er ég, að því er mér virðist, að lesa eitthvað allt annað en hv. þingmaður er að tala um. Þetta er mjög gott mál og ég skil ekki hvernig einhverjir þingmenn Miðflokksins geta verið á móti því. Ég einlæglega skil það ekki og er búinn að hlusta hér í allan dag og lesa frumvarpið. Það virðist vera einn sameiginlegur þáttur í þeim málum sem Miðflokkurinn er í andstöðu við þegar kemur að útlendingamálum og það er að þau varði útlendinga. Hvort sem þau snúast um að auka skipulagið og öryggið eða hjálpa fólki að aðlagast samfélaginu, læra íslensku, koma undir sig fótunum til þess að verða skattgreiðendur og borgarar, þá er Miðflokkurinn á móti því. Hvers vegna?