151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[18:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og hæstv. ráðherra hefur margítrekað, og ég ítrekaði hérna í ræðu og ég veit ekki alveg hvernig á að útskýra betur, þá fjallar þetta mál bara ekkert um það. Það verkefni sem hv. þingmaður er að tala um, að hælisleitendur fái sömu þjónustu og kvótaflóttamenn þegar þeir fá dvalarleyfi, veltur ekki á þessu máli. Það hefur verið margsagt hérna. Ég kann ekki að útskýra það betur, virðulegi forseti. Ég kann nokkur tungumál, en ég get bara notað íslensku hér, skilst mér, í minni stöðu, og ég get ekki útskýrt þetta betur á íslensku en svona. Þetta hefur verið sagt. Hæstv. ráðherra sagði þetta mjög skýrt. Þetta mál snýst um það að auka skipulagshæfni Fjölmenningarseturs. Fleira er það ekki. Það er það sem þetta mál fjallar um. Hvað kostar það? 23,7 milljónir, bls. 5. Ég kann bara íslensku ekki betur, ég útskýri þetta svona, virðulegi forseti. Hv. þingmaður er að rugla saman ólíkum hlutum, eins og ráðherra er reyndar búinn að margítreka. Ég get ekki betur en þetta, virðulegi forseti. Ég verð að láta þar við sitja hvað það varðar.

Hv. þingmaður nefnir að biðtíminn kosti pening. Það er hárrétt. Þess vegna eigum við að stytta biðtímann og þess vegna eigum við líka kannski að slaka aðeins á því að vera alltaf að reyna að halda fólki frá landinu, því að það er það sem kostar pening.

Virðulegur forseti. Það kostar ekkert að Pólverjar komi hingað í þúsundatali vegna þess að þeir mega vera hérna. Kostnaðurinn felst í bákninu, sem hv. þingmaður aðhyllist bersýnilega, við það að halda fólki frá landinu. Þar liggur kostnaðurinn. Hvað varðar síðan kostnaðinn við að aðstoða fólk við að aðlagast íslensku samfélagi þá finnst mér bara svo stórfurðuleg nálgun að líta á það sem einhverja eyðslu á peningum. Heldur hv. þingmaður að þessi 631 einstaklingur sem fékk dvalarleyfi í fyrra sem hann nefndi — heldur hv. þingmaður íslenskt samfélag gengi betur ef þetta fólk hefði ekki fengið aðstoð við að sækja sér vinnu og hefði ekki fengið aðstoð við að læra íslensku og komast inn í samfélagið? Væri það sparnaður að mati hv. þingmanns? Ég held ekki.