151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[19:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aftur kemur það upp sem virðist vera minnimáttarkennd hv. þingmanna Miðflokksins gagnvart því að Píratar hafi skoðun á útlendingamálum. Reyndar stórfurðulegt. Já, ég skal svo sem gangast við því að ég veit eitthvað um málaflokkinn, það er fullt að læra en ég veit eitthvað um hann. Ætti ég biðst afsökunar á því? Ég veit ekki hvað hv. þingmaður vil fá frá mér í þeim efnum. En aftur: Ég kom nú ekki hingað til þess að sýna hvað ég er gáfaður heldur til að ræða útlendingamálin sjálf og sér í lagi þetta frumvarp. Eins og ég er búinn að útskýra margsinnis núna og hæstv. ráðherra búinn að útskýra margsinnis þá er það verkefni sem hv. þingmaður talar um ekki efni frumvarpsins. Efni frumvarpsins er liður í því að gera það skilvirkara fyrir 23,7 milljónir, auðvelda það að fólk geti komist inn í íslenskt samfélag.

Virðulegur forseti. Ég veit ekki alveg hversu oft ég þarf að endurtaka það til að það verði skýrt. Já, útlendingamálum fylgir kostnaður. Það fylgir því líka kostnaður að mennta grunnskólabörn. Það fylgir því kostnaður að gera fólki kleift að taka þátt í samfélaginu. Ég hef ekki áhyggjur af þeim kostnaði, hvorki þeim tölum sem hv. þingmaður nefndi, né því að sá kostnaður sé sóun á skattfé, vegna þess að kostnaðurinn er miklu hærri að mínu mati, ekki bara fjárhagslega, af því að skilja fólk eftir úrræðalaust, án þess að það geti talað íslensku eða lært íslensku með góðu móti og án þess að vita hvernig það á að snúa sér í því, án þess að það geti fundið sér vinnu, án þess að það þekki réttindi sín og skyldur. Það er dýrt, virðulegi forseti, og það er kostnaður sem hv. þingmaður lítur fram hjá ef hann vill tala um málaflokkinn í heild eða út fyrir frumvarpið.

En hvað varðar frumvarpið og efni þess þá skora ég á hv. þingmann, sem er kannski ósanngjarnt vegna þess að við erum hérna í seinna andsvari, að finna greinina í þessu frumvarpi sem felur í sér þennan óheyrilega kostnað. Hvar er hún? Frumvarpið er fjórar greinar. Þrjár efnislegar. Hún er ekki þarna, virðulegi forseti. Kostnaðurinn sem hlýst af þessum greinum er 23,7 milljónir, áætlaðar, eins og kemur fram á bls. 5. (Gripið fram í.) Það þýðir ekkert að þræta fyrir það. (BirgÞ: Aukinn kostnaður … ) Það þýðir ekki að þræta fyrir það. En aftur, virðulegi forseti: Ég kann nokkur tungumál en íslensku ekki nógu vel til að útskýra það betur. (BirgÞ: Aukin þjónusta kostar.)