151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

ÖSE-þingið 2020.

490. mál
[15:04]
Horfa

Frsm. ÍÖSE (Gunnar Bragi Sveinsson) (M):

Herra forseti. Það er mikilvægt að við gefum okkur tíma til að fara yfir það alþjóðasamstarf sem þingið og þingmenn eiga fyrir hönd Alþingis því að það skiptir okkur verulegu máli þó að þetta sé kannski ekki alltaf það fyrsta sem fólki dettur í hug, að við séum í samstarfi um hin og þessi brýnu málefni. Ég hef lengi verið talsmaður þess að við eigum að auka þetta samstarf vegna þess að alþjóðaákvarðanir hafa áhrif á heildarhagsmuni Íslands sem sjálfstæðs fullvalda ríkis og áherslur okkar þegar kemur að mannréttindum og réttindum fólks og réttindum okkar til eigin ákvarðana.

Ég ætla að skauta yfir skýrslu Íslandsdeildar ÖSE. Ég sleppi því reyndar að fjalla um lýðræðis- og mannréttindanefndina, en þar situr góður félagi okkar, hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson, sem mun fara yfir það. Á vettvangi þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE-þingsins, eins og við köllum það, ber kannski hæst umræður um þær áskoranir sem kórónuveiran hefur skapað þinginu og störfum þess, og svo að sjálfsögðu viðbrögð aðildarríkja við faraldrinum. Þá voru vopnuð átök í Nagorno-Karabakh og mótmæli í kjölfar kosninga í Hvíta-Rússlandi mjög áberandi.

Vetrarfundur ÖSE-þingsins fór að venju fram í Vínarborg í febrúar og þar kom fram að óleyst átök á ÖSE- svæðinu, í Úkraínu, Georgíu, Nagorno-Karabakh og Transnistríu, hömluðu öðru starfi samtakanna. Því miður verður að segjast eins og er, herra forseti, að þetta eru gamalkunnug nöfn, gamalkunn vandamál sem við erum að glíma við og sum eldri en önnur. Það er óhætt að segja að lengst af hafi þetta verið svokölluð frosin deilumál, „frozen conflicts“, eins og það er kallað á erlendri tungu. Þó hefur það gerst að ákveðið vopnahlé náðist eftir að átök brutust því miður út í Nagorno-Karabakh. En eins og gengur þá sýnist sitt hverjum þegar friður er kominn á og búið að miðla málum. Í það minnsta tókst að stöðva það stríð sem þar braust út með aðstoð m.a. Rússa sem beittu sér þar.

Mannréttinda- og lýðræðisstofnun ÖSE, ODIHR, var virk eins og venjulega og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir framkvæmdastjóri ræddi á ársfundinum einmitt þau atriði sem þar bar hæst.

Eftir að heimsfaraldur kórónuveiru breiddist út til aðildarríkja ÖSE-þingsins var í apríl tekin sú ákvörðun í byrjun að aflýsa ársfundi þingsins sem vera átti í Vancouver í Kanada í júní.

Starfsreglur ÖSE-þingsins eru þannig að ályktanir sem samþykktar eru á ársfundi þingsins skulu gerðar með handauppréttingu að þingmönnum viðstöddum. Það sama á við um kosningu forseta og varaforseta þingsins. Á árinu 2020 voru því engar ályktanir samþykktar á vettvangi þingsins eða kosið til embætta þess. Undir lok árs voru kynnt drög að breytingum á starfsreglum til að gera ÖSE-þinginu kleift að takast á við aðstæður sem þessar í framtíðinni. Skrifstofa þingsins og sérnefnd um starfsreglur þingsins var gagnrýnd fyrir það hversu seint tillögurnar komu fram.

Kosningaeftirlit á vegum ÖSE og ODIHR var að sjálfsögðu takmarkað á árinu vegna strangra sóttvarnareglna. Aflýsa þurfti kosningaeftirliti á nokkrum stöðum. Í byrjun apríl hóf skrifstofa þingsins að safna upplýsingum um áhrif faraldursins í aðildarríkjum og dreifa til þingmanna. Í samantektum skrifstofu þingsins var fjallað um fjölda sýkinga, yfirlýsingu neyðarástands, efnahagslegar aðgerðir, rafrænt eftirlit, lokun landamæra o.s.frv. Þessar upplýsingar eru og verða í framtíðinni dýrmætar, ef við viljum bera saman aðgerðir og komast yfir tölulegar upplýsingar. En þær voru ekki síður dýrmætar á þessum tíma þar sem ekki var hlaupið að því að nálgast yfirlitsgögn og upplýsingar um mismunandi aðgerðir. Skrifstofan stóð sig býsna vel í þessu, svo ég segi það nú. Skrifstofan notaði einnig spjallforritið WhatsApp, ég kann ekki íslenska nafnið á því, ég kalla það bara spjallforrit, þar sem skipst var á upplýsingum og haldnir stuttir fundir. Það var ágætt upplýsingaflæði þar. Haldnir voru ýmsir veffundir, þar á meðal um heimsfaraldurinn og áhrif hans á ýmsa málaflokka ÖSE-þingsins og ýmsir sérfræðingar kallaðir til. Í umræðum á stjórnarnefndarfundum undir lok árs kom fram að faraldurinn hefði varpað ljósi á mikilvægi fjölþjóðlegrar samvinnu og samstöðu.

Á bls. 2 er kafli sem heitir Almennt um ÖSE-þingið. Ég ætla ekki að dvelja mikið við hann, en Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, starfar á grundvelli Helsinki-lokagerðarinnar frá árinu 1975. Með þessari Helsinki-lokagerð skuldbundu aðildarríki sig til að bæta samstarf sín á milli, virða landamæri hvert annars og tryggja mannréttindi íbúa sinna. Lagalega séð er lokagerðin ekki hefðbundinn sáttmáli, er ekki staðfest af lögþingum í löndum þeirra þjóðhöfðingja sem skrifuðu undir hana. Er ÖSE því ólíkt öðrum fjölþjóðlegum stofnunum hvað þetta varðar, en engu að síður er þessi yfirlýsing mjög mikilvæg í ljósi þess verkefnis sem ÖSE-þingið hefur.

Hlutverk ÖSE-þingsins er að hafa áhrif á stefnumótun og áherslur í starfi ÖSE og að hafa eftirlit með og meta árangurinn af starfi stofnunarinnar. Í málefnanefndum þingsins er unnið að undirbúningi ályktana. Þær eru síðan afgreiddar á ársfundi og komið á framfæri við ráðherraráð ÖSE, sem er vettvangur utanríkisráðherra aðildarríkjanna og fastaráð ÖSE, en þar eiga sæti sendiherrar eða fastafulltrúar aðildarlandanna gagnvart ÖSE.

ÖSE-þingið kemur saman til ársfundar í allt að fimm daga í júlí. Einstök aðildarríki skiptast á að halda ársfund. Eins og ég sagði áðan var ekki haldinn ársfundur á síðasta ári vegna kórónuveirufaraldursins. Síðan er haldinn vetrarfundur í Vín og svo haustfundur. Venjan hefur verið sú að vetrarfundurinn er haldinn í Vín en haustfundurinn haldinn í aðildarríkjunum. Ég held að það sé alveg kominn tími á það, herra forseti, að Ísland taki að sér og bjóði upp á að haustfundurinn verði haldinn á Íslandi sem allra fyrst. Ísland hefur mikið fram að færa. Ísland er virkur aðili í þessu alþjóðlega samstarfi, hvort sem það er innan ÖSE eða Evrópuráðsþingsins og víða annars staðar. Það væri mikill sómi að því að bjóða upp á að halda þetta þing hér og ég veit að það er, og hefur verið í nokkur ár, áhugi fyrir því hjá þeim sem stýra ÖSE frá degi til dags að fundurinn væri haldinn á Íslandi. Því tel ég ástæðu til að nefna það hér.

Í skýrslunni er farið yfir hvernig þetta virkar allt saman, hvað forseti getur gert o.s.frv. Í Íslandsdeildinni erum við þrjú, sá sem hér stendur, Gunnar Bragi Sveinsson, Bryndís Haraldsdóttir og Guðmundur Andri Thorsson. Varamenn eru Sigurður Páll Jónsson, Birgir Ármannsson og Logi Einarsson, en ritari er Bylgja Árnadóttir alþjóðaritari. Ég sit í nefnd um öryggis- og stjórnmál, Bryndís Haraldsdóttir í nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál og Guðmundur Andri Thorsson í nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál.

Nú er ég búinn að fara aðeins yfir hvernig fundirnir ganga fyrir sig, hvenær er fundað og slíkt. Vetrarfundurinn var haldinn í Vín 20.–21. febrúar, rétt áður en að Covid fór á fleygiferð. Þar sóttum við fundinn öll þrjú ásamt Bylgju alþjóðaritara. Þar var að sjálfsögðu rædd staða öryggis í heiminum og benti þáverandi forseti, George Tsereteli, sem er frá Georgíu, á það að liðin væru 30 ár frá því að alda breytinga hefði gengið yfir álfuna og Sovétríkin riðuðu til falls. Að sjálfsögðu var margt annað rætt á þessum fundi og það var nokkuð merkileg ræða sem haldin var þar. Það er algengt að gestir komi á þessa fundi og tali um einstök mál. Þar var haldin umræða um baráttu gegn gyðingahatri, mismunun og skort á umburðarlyndi. Var það Andrew Baker, rabbíni og sérstakur fulltrúi formanns ÖSE í baráttunni gegn gyðingahatri, sem gerði það. Þetta var mjög merkileg umræða og ég held að það sé hægt að horfa á hana á internetinu.

Á fundi um stjórnmál og öryggismál var ávarp frá manni sem heitir Neil Bush, formaður nefndar ÖSE um málaflokkinn og sendiherra Bretlands hjá ÖSE. Hann talaði um hryðjuverkaógn og þá staðreynd að almenningur, og ekki bara almenningur, flestir hafa áhyggjur af hryðjuverkaógn og það sé mikilvægt að skilja ógnina og hvað búi að baki og hvernig sérstaklega ungir menn ganga til liðs við ofbeldissamtök eða -hópa.

Nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál hlýddi á ávörp frá m.a. sendiherra Serbíu hjá ÖSE, Vuk Zugic, sem stýrir verkefnum ÖSE á sviði efnahags og umhverfismála. Á fundinum var líka sérstök umræða um áhrif loftslagsbreytinga á öryggismál og hlutverk þingmanna. Þar var sérstakur fulltrúi, Torill Eidsheim, sem er norsk og hefur látið sig þessi mál miklu varða og er mjög öflugur fulltrúi okkar sem höfum áhyggjur af loftslagsbreytingum, og ekki síst á norðurslóðum.

Samhliða þessum þingfundum voru hliðarviðburðir haldnir og fékk ég þann heiður að stýra áhugaverðum kynningarfundi um niðurstöðu sérstaks framsögumanns ÖSE-þingsins um morðið á Boris Nemtsov. Eins og margir þekkja var þessi öflugi rússneski baráttumaður lýðræðis, jafnréttis og breytinga í Rússlandi myrtur á kvöldgöngu á leið heim frá veitingastað í miðri Moskvuborg. Segja má að einhverjum spurningum í það minnsta, ef ekki fullmörgum, sé enn þá ósvarað um það morð.

Var flutt þarna skýrsla sem unnin var af Margaretu Cederfelt frá Svíþjóð sem var mjög áhugavert að fara yfir.

Hinn 25. maí 2020 haldinn var samráðsfundur Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna, svokallaður NB8-fundur innan ÖSE-þingsins, þar sem við tókum þátt og tókum til máls eins og þörf var á. Síðan var haldinn stjórnarfundur ÖSE-þingsins 7. júlí sl. þar sem Bryndís Haraldsdóttir tók þátt sem varaformaður fyrir þann er hér stendur. Þessir fundir eru raktir í skýrslunni.

Ég ætla að nefna ákveðið atriði sem skiptir töluverðu máli. Á þessum fundi kom m.a. fram í máli Andreasar Nothelles, sem er sérstakur fulltrúa ÖSE-þingsins gagnvart ÖSE, þ.e. ráðherrabatteríinu og því öllu saman, að ákveðinn forystuvandi stæði fyrir dyrum, að ráðningartíma fjögurra æðstu embættismanna ÖSE lyki um miðjan júlí, þ.e. í fyrra, og var ekki eining um að framlengja ráðningartíma allra. Þar á meðal lögðust nokkur ríki því miður gegn því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir yrði áfram í embætti framkvæmdastjóra Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE (ODIHR). Það var svolítið sérstakt að menn gripu til þess ráðs að neita að framlengja ráðningartíma þessara framkvæmdastjóra sem þarna voru. Freistandi er að ætla að menn hafi notað tækifærið vegna þess að ekki var hægt að hittast, ekki var hægt að setjast niður og ekki var hægt að rökræða almennilega um ástæður þess að menn vildu fara þessa leið vegna þess að þetta gerðist allt á einhverjum fjarfundum. Þá hafi menn kannski frekar haft kjark til að stíga fram með þessum sérkennilega hætti.

Hinn 9. nóvember 2020 var aftur haldinn samráðsfundur Norðurlanda og Eystrasaltsríkja innan ÖSE-þingsins, þ.e. NB8-fundur. Þar var verið að undirbúa næsta fund, sem var þá vetrarfundurinn, og rætt um breytingar á reglum og öðru slíku. Allt voru þetta að sjálfsögðu fjarfundir. Hinn 12. nóvember var svo stjórnendafundur þar sem ég tók þátt og þar var nokkuð góð heimsókn. David Beasley, framkvæmdastjóri Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, ávarpaði stjórnarnefndina m.a. í tilefni þess að stofnunin fékk friðarverðlaun Nóbels 2020 fyrir viðleitni sína í baráttu gegn hungri. Var mjög merkilegt að hlusta á þennan ágæta mann og dugmikla framkvæmdastjóra fara yfir það hversu miklu það skiptir að við látum hin vel efnuðu lönd um stuðning til m.a. Matvælastofnunarinnar til að hjálpa öðrum. Fram kom í máli Beasleys að þegar heimsfaraldur kórónuveiru brast á höfðu 130 milljónir manna í heiminum verið á barmi hungursneyðar. En í nóvember í fyrra var þessi tala komin upp í 207 milljónir. Þannig að við sjáum strax hversu mikil áhrif þessi faraldur hefur haft á hina þurfandi og hina snauðu. Við þurfum að hafa það í huga.

Síðan vil ég nefna að á síðasta ári gerðist það að þáverandi forseti, George Tsereteli, hlaut ekki kosningu til þings í Georgíu og hætti þar af leiðandi sem forseti ÖSE. Við tók Peter Bowness, sem er búinn að starfa lengi í þessum bransa og taka að sér endurskoðun á regluverki ÖSE, sem er ekki einfalt mál, og reyna að búa til reglur þar sem fulltrúar 57 ríkja, um það bil, eiga að koma sér saman um hvernig greiða á atkvæði eða ráða í stöður og slíkt. Verð ég að segja að hann hefur sýnt mikla elju og útsjónarsemi þessi ágæti Breti.

Ég ætla að nefna hér að Peter Bowness, formaður sérnefndar um starfsreglur og vinnulag ÖSE-þingsins, kynnti drög að nýjum ákvæðum starfsreglna um starfsemi þingsins á tímum neyðarástands. Þetta var eitt af því sem kallað var eftir, að sjálfsögðu, m.a. vegna þess að ekki var hægt að kjósa. Ákvæðin miðuðu m.a. að því að hægt yrði að halda ársfund með fjarfundabúnaði svo fremi sem stjórnarnefndin lýsti yfir neyðarástandi. Í tilviki eins og núna, þegar kórónuveirufaraldurinn hefur lagst yfir heimsbyggðina, hefði ÖSE-þingið eða stjórnarnefndin þurft að geta lýst yfir neyðarástandi því að þá hefðum við getað haldið ársfundinn og kosið í embætti og haldið eins venjulegan ársfund og hægt er að halda í gegnum netið. En ég vil nota tækifærið, herra forseti, og segja að slíka fundi er almennt mjög óæskilegt að halda á netinu, svo það sé nú sagt, því að það er mjög mikilvægt að eiga samræður beint við þá aðila sem við teljum okkur þurfa að ræða við eða sem þurfa að ræða saman. Ég ítreka að það kann að vera að það sé meiri losarabragur á einstökum málum ef þau eru ekki rædd augliti til auglitis.

Herra forseti. Síðan kemur að lokablaðsíðu þessarar skýrslu. Roberto Montella tilkynnti að forsetinn þyrfti líklega að víkja eins og ég nefndi áðan.

Samráðsfundur Norðurlanda og Eystrasaltsríka innan ÖSE-ríkja var síðast haldinn 30. nóvember sl. en það er annar fundur á döfinni fljótlega. Þar funduðum við m.a. um starfsemina almennt á þessum tímum heimsfaraldurs kórónuveiru og fórum sérstaklega yfir drög að breytingum á starfsreglum sem Peter Bowness lávarður hefur kynnt og lagt fram.

Ég verð að nota tækifærið og þakka þeim félögum mínum í þessari nefnd, Guðmundi Andra Thorssyni og Bryndísi Haraldsdóttur, fyrir gott samstarf, og eins Bylgju Árnadóttur kærlega fyrir að bera þungann af þessari skýrslu og fylgja okkur og taka punkta á þessum fjölmörgum fundum sem fylgja þessu starfi.