151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

meðferð sakamála.

129. mál
[16:41]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta svar. Ég ætla að vera örlítið nákvæmari. Lokað þinghald tryggir ekki friðhelgi þeirra sem eru á leið til dómhúss, annaðhvort sem vitni, sem meintir sakborningar eða annað. Lokað þinghald er inni í dómsalnum. Þannig að nú segi ég aftur: Vega hagsmunir þeirra sem reka fjölmiðla og okkar almennings þyngra? Er það mikilvægara fyrir okkur að vita hvert vitnið er sem er á leið til dómhúss í erfiðu máli? Eru hagsmunir almennings meiri en t.d. vitnisins sem kemur skelfingu lostið á vettvang? Og nú segi ég aftur: Lokað þinghald snýst um dómsalinn. Það snýst ekki um aðkomu manna að dómstólnum eða dómhúsinu, alls ekki. Þess vegna verð ég að spyrja hv. þingmann: Er það mat hennar að í slíkum tilfellum vegi réttur almennings til upplýsingaöflunar og fréttamanna til upplýsingaöflunar þyngra en mögulegs fórnarlambs sem er á leið til vitnaleiðslu?