151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

innviðir og þjóðaröryggi.

[14:16]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir frumkvæðið. Hamfarir, sem líklegast er að aukist í náinni framtíð vegna loftslagsbreytinga, eru sannarlega eitthvað sem við þurfum að hafa í huga. Þegar við hugsum um innviði og þjóðaröryggi hugsum við óhjákvæmilega um þætti eins og fjarskipti, orkukerfi, heilbrigðisþjónustu, matvæli, löggæslu, neyðarþjónustu, samgöngukerfi, og fleira mætti nefna. Raforkukerfið vegur þar þungt enda erum við háð raforku bæði í leik og starfi. Mikilvægi öflugs flutnings- og dreifikerfis er því óumdeilt. Viðhald og styrking kerfisins hlýtur því að vera forgangsatriði og þá hljótum við að þurfa að líta til þess í uppbyggingu kerfisins að það geti gagnast jafnvel þó að eitthvað komi upp á á einum stað á landinu. Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, benti nýverið á þá staðreynd í viðtali við Fréttablaðið. Þannig þurfum við að horfa á það sem þjóðaröryggismál að tryggja flutningsgetu milli landshluta með öflugri hringtengingu. Sú hringtenging þarf einnig að vera til staðar, til að mynda á Reykjanesskaganum, Vestfjörðum og Snæfellsnesi. Það sama gildir um uppbyggingu og viðhald vega, hafna, flugvalla og fjarskiptakerfa.

Herra forseti. „Þetta reddast“, er viðkvæðið sem við Íslendingar hreykjum okkur stundum af. En þegar kemur að þjóðaröryggi má það ekki vera viðkvæðið. Og til að tryggja að svo verði ekki verðum við að horfast í augu við að við höfum ekki efni á að láta viðhald og uppbyggingu mikilvægra innviða danka, eins og raunin hefur því miður verið. Þá stöndum við frammi fyrir aðstæðum sem hljóta að vekja okkur til umhugsunar um uppbyggingu fleiri flugvalla en á Reykjanesskaga. Í því samhengi verður einnig að skoða hvort við höfum tryggt viðbragð og stjórnun ef eitthvað gerist á höfuðborgarsvæðinu þar sem við höfum safnað saman höfuðstöðvum allra helstu aðila á nánast sama stað. Hefur hæstv. ráðherra velt fyrir sér kostum þess að tryggja að hægt sé að keyra helstu viðbragðskerfi utan höfuðborgarsvæðisins?