151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

innviðir og þjóðaröryggi.

[14:19]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan er þessi umræða mjög áhugaverð og af mörgu að taka. Maður þarf því að reyna að hlaupa yfir málið á hundavaði til að koma sem flestum atriðum að sem mikilvægt er að nefna. Í fyrsta lagi langar mig til að segja, í framhaldi af því sem nefnt var hér áðan varðandi ljósleiðaravæðinguna og örugg fjarskipti á Íslandi, að auðvitað þurfum við að hraða því verkefni. Við ákváðum á síðasta ári að setja 443 milljónir í ljósleiðaravæðingu í dreifbýli og við þurfum að halda áfram og klára það verkefni.

Mig langar einnig til að nefna hér fæðuöryggismálin. Hæstv. ráðherra Kristján Þór Júlíusson kynnti hér fyrir skömmu skýrslu um fæðuöryggi. Þar kom fram að við erum sjálfum okkur nóg að mestu um kjöt og egg og fisk og slíkt, en sóknarfæri eru í grænmetisframleiðslunni. Einnig þurfum við að vera sjálfbærari varðandi framleiðslu á áburði og eldsneyti til þess að geta framleitt kjötið og sótt fiskinn. Þar höfum við gríðarleg tækifæri að mínu mati.

Ég hef lagt fram tvær þingsályktunartillögur nú þegar sem snúa annars vegar að orkujurtunum repju og nepju og svo þörungum. Þessar lífverur geta gert okkur sjálfbærari, t.d. hvað varðar áburð og orku. Þarna eru sóknarfæri sem við þurfum að skoða frekar.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir nefndi greiðslumiðlunarkerfin. Það er risastórt mál og við þurfum að velta fyrir okkur þeirri þróun sem orðið hefur, hvort hún sé í þágu þjóðarinnar, hvort við þurfum að fara að ramma þetta enn betur inn. Það þarf að skoða og mig langar til að nefna hér, sem tengist aftur matvælaframleiðslunni okkar, nýlegt verkefni sem Landsvirkjun, í samstarfi við landbúnaðarráðherra, Landbúnaðarháskóla Íslands og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, hefur sett af stað sem snýr (Forseti hringir.) að nýsköpun í matvælaframleiðslu og fleiru. Þetta er hægt. Verið er að gera góða hluti en við erum líka með svakaleg sóknarfæri. Við erum með hreint vatn, landsvæði og orku og við eigum að nýta það enn betur.