151. löggjafarþing — 61. fundur,  2. mars 2021.

samræmd niðurgreiðsla hjálpartækja fyrir heyrnar- og sjónskert börn.

346. mál
[16:59]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir litlu og sætu en jafnframt mikilvægu máli sem ég legg fram ásamt þingflokki Framsóknarflokksins, hv. þingmönnum Höllu Signýju Kristjánsdóttur, Þórunni Egilsdóttur, Líneik Önnu Sævarsdóttur og Willum Þór Þórssyni. Þessi þingsályktunartillaga er ákveðið jafnréttismál að mörgu leyti til að tryggja velferð barna og jafnrétti vegna þess að sumt fólk fæðist með ýmsar skerðingar, þar á meðal sjónskerðingar sem geta verið ansi alvarlegar og háð fólki mjög í daglegu lífi.

Þingsályktunartillagan felur í sér að fela hæstv. heilbrigðisráðherra og félags- og barnamálaráðherra að samræma reglur sem gilda um niðurgreiðslu eða greiðsluþátttöku ríkisins vegna kaupa á heyrnartækjum og gleraugum fyrir börn. Eins og kerfið er núna eru mismunandi reglur um þátttöku í niðurgreiðslu eftir því hvort um er að ræða kaup á heyrnartæki annars vegar og gleraugum hins vegar.

Hæstv. forseti. Ég ætla kannski ekki að fara að lesa greinargerð málsins. Hún er reyndar ekki löng en upplýsandi. Ég hef rætt við nokkra foreldra sem eru í þeirri stöðu að eiga jafnvel fleiri en eitt barn með mikla sjónskerðingu. Ein gleraugu á ári fyrir þessi börn duga ekki almennilega til svo börnin geti sinnt t.d. skólasundi, íþróttum og öðru. Þau þurfa jafnvel sérstök sundgleraugu með styrkleika og sérstök íþróttagleraugu til að nýta í leikjum og við íþróttaiðkun. Þetta er því oft umtalsverður kostnaður fyrir venjulegar fjölskyldur, svo ég tali nú ekki um þegar kannski er um fleiri en eitt barn að ræða. Oft og tíðum er mikil sjónskerðing ættgeng þannig að það leggst oft þungt á fjölskyldur þegar sú er staðan.

Þetta mál hefur verið ansi lengi til umræðu og skoðunar en hefur, að ég tel, fallið svolítið á milli skips og bryggju, vegna þess að e.t.v. er um að ræða tvö ráðuneyti sem þurfa að tala saman og samræma reglur sem gilda um þessi nauðsynlegu hjálpartæki, heyrnartækin og sjóntækin.

Ég ætla því ekki að segja meira um þetta. Ég held að málið sem slíkt og greinargerðin segi það sem segja þarf. Ég vonast til að Alþingi geti fjallað um málið, að það verði tekið til umfjöllunar í þingnefnd, væntanlega velferðarnefnd, svo fljótt sem verða má. Ég held að ég sé ansi bjartsýn að segja að við vonumst til að málið verði afgreitt nú á vorþingi en maður á alltaf að vera bjartsýnn og vongóður. Ég held að þarna sé gat sem við getum alveg verið sammála um að sé tiltölulega einfalt að laga þegar fólk þekkir málið og gerir sér grein fyrir þörfinni og því misræmi sem nú er í kerfinu.

Hæstv. forseti. Ég ætla að láta staðar numið og óska eftir góðri afgreiðslu sem allra fyrst.