151. löggjafarþing — 63. fundur,  3. mars 2021.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

358. mál
[16:28]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, lögum nr. 23/2013. Ásamt mér eru flutningsmenn þessa frumvarps hv. þingmenn Brynjar Níelsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Jón Gunnarsson, Bryndís Haraldsdóttir, Ásmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um Ríkisútvarpið sem fela í sér breytt fyrirkomulag við innheimtu útvarpsgjalds. Lagt er til að gjaldið verði innheimt með beinum hætti tvisvar á ári og að meginstefnu rafrænt með greiðsluseðli í heimabanka líkt og gert hefur verið með bifreiðagjöld, samkvæmt lögum um bifreiðagjald, nr. 39/1988. Breytt fyrirkomulag innheimtu á jafnt við um einstaklinga sem lögaðila. Tilkynning um álagningu telst birt einstaklingi eða lögaðila þegar hann getur nálgast hana í pósthólfi á vefsvæðinu ísland.is.

Með þessu er horfið frá því að innheimta útvarpsgjaldið samhliða álagningu opinberra gjalda en aðrir þættir varðandi gjaldskyldu, undanþágur frá gjaldskyldu og upphæð gjaldsins verða hins vegar óbreyttir. Ríkisskattstjóri og innheimtumenn ríkissjóðs sjá um innheimtu gjaldsins.

Með frumvarpinu er ekki lagt til að lögþvingun áskrifta að Ríkisútvarpinu í formi útvarpsgjalds verði hætt. Og ég hygg, hæstv. forseti, að einhverjir verði fyrir vonbrigðum með það. Flutningsmenn telja hins vegar að með beinni innheimtu aukist eðlilegt og nauðsynlegt aðhald að Ríkisútvarpinu, jafnt rekstrarlega og faglega við dagskrárgerð.

Bein innheimta stuðlar, eða ætti að öðru óbreyttu að stuðla að betri kostnaðarvitund almennings þegar kemur að tekjuöflun Ríkisútvarpsins en það er, sem kunnugt er, fjármagnað í samræmi við þjónustusamning, með fjárveitingu á grundvelli heimildar í fjárlögum sem nemur að lágmarki áætlun fjárlaga um tekjur af útvarpsgjaldi. Þessu erum við flutningsmenn ekki að breyta með neinum hætti.

Það er auðvitað von okkar líka að með þessu aukist einnig áhugi almennings á eðli og rekstri Ríkisútvarpsins. Þegar menn finna það með beinum hætti að landsmenn eru í raun að borga áskriftargjald, eins og ég vil kalla það, útvarpsgjald, að Ríkisútvarpinu þá er heilbrigðara og eðlilegra að fólk greiði það sjálft en það sé ekki falið í innheimtu með staðgreiðslu opinberra gjalda.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir því að málið gangi til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.