151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

almenn hegningarlög.

453. mál
[17:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalegar og góðar spurningar. Hvort ég sé andsnúin refsingum við hótunum og hatursáróðri; hótanir eru ofbeldi í mínum huga og er fullkomlega eðlilegt að banna þær. Ég er ekki á móti öllum takmörkunum á tjáningarfrelsi. Ég flutti frumvarp um að banna dreifingu á nektarmyndum annarra í leyfisleysi, sem dæmi, og er hlynntur takmörkun á tjáningarfrelsi til að vernda réttindi annarra, svo sem friðhelgi einkalífsins o.fl. En það er hins vegar almennt séð ekki góð leið til að ná settu markmiði þótt það geti verið nauðsynlegt, þannig að ég er ekki hrifinn af þeirri leið þótt ég sé hlynntur henni þar sem það er nauðsynlegt. Ég er ekki hrifinn af refsingum eða fangelsun yfir höfuð.

Hv. þingmaður spyr um það hvernig eigi að bregðast við afneitun helfararinnar. Ég ætla að bíða með það þar til síðar, það er vont að hafa ekki tíma til að fara nógu vel út í það, nema kannski í annarri ræðu.

Hv. þingmaður spyr einnig hvort ég sé hlynntur aðgerðum leyniþjónustustofnana Þýskalands til að fylgjast með AFD, og ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma inn á þetta vegna þess að mig langaði að hafa það í ræðu minni, en já, ég er hlynntur því. Mér finnst það mjög jákvætt og mikilvægt en það er neikvætt að þess þurfi. Mér finnst það algerlega réttmætt og ég tel að það geti aðstoðað, ég held að það geti hjálpað til við að ráða bug á þeirri ógeðslegu hreyfingu. Það er hins vegar ekki það sama og mér finnst um þetta tiltekna frumvarp. Sömuleiðis tel ég nýfasismann vera í eðli sínu það valdbeitingarsinnaðan að mjög takmarkað rými sé fyrir einhverjar upplýstar umræður við nýfasista. Þeir eru almennt komnir fram yfir þann punkt. Það er hins vegar fólkið sem gæti laðast að þeim sem er hægt að forða frá þeim áður en það er orðið of seint. Reyndar er það alveg ótrúlegt hvað fólk er gjarnt á að skipta um skoðun ef út í það er farið. Það eru ýmsar heimildir fyrir því sem ég gæti bent hv. þingmanni á ef hún hefur áhuga. En svo ég ítreki það, ég er hlynntur því og finnst mjög mikilvægt að berjast gegn þessum öfgaöflum og AFD eru öfgaöfl, alveg klárlega. En það skiptir máli að aðgerðirnar séu hannaðar til að virka (Forseti hringir.) og að þær nái raunverulegum markmiðum og búi ekki til slík hliðarvandamál að við nærum vandamálið óvart sem við erum að reyna að kveða niður.