151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

almenn hegningarlög.

453. mál
[18:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði nú ekki að koma í annað andsvar, en fyrst hv. þingmaður spurði mig þá nýti ég tækifærið, það sparar mér kannski líka ræðu á eftir. En ég er hlynntur því að það sé hatursorðræðulöggjöf. Ég tel hins vegar ákvæðið sem er núna í almennum hegningarlögum vera gallað. Þegar því var breytt á þarsíðasta kjörtímabil, ég man ekki nákvæmlega hvaða ár, þá gagnrýndi ég breytinguna frekar harðlega, fannst sumum. Ég hef ekki tíma til að fara út í allt sem ég hef við það að athuga, en mér finnst mjög mikilvægt að hatursorðræðulöggjöf sé fáguð og góð. Ég tel hana ekki vera það í íslenskri löggjöf. Ég hefði áhuga á að breyta henni og bæta hana, en ég tel að hún eigi að vera til staðar. Þar sem ég er hér í seinna andsvari ekki að spyrja hv. þingmann þá ætlast ég ekki til að hún svari en býð þó hv. þingmanni pontuna ef hún kýs að nýta hana.