151. löggjafarþing — 65. fundur,  11. mars 2021.

vera Íslands í Atlantshafsbandalaginu.

[15:19]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú að byrja á því að þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir þessa umræðu. Við höfum stundum nefnt það hér, sem höfum áhuga á utanríkismálum, að við tölum allt of lítið um utanríkismál. Hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir nefndi það einmitt í lok ræðu sinnar að stór hluti landsmanna hefði enga skoðun á NATO. Það segir okkur að við þurfum að tala meira um það efni. Hvað er NATO? Af hverju erum við í NATO? Eigum við að vera í NATO eins og við erum núna o.s.frv.? Þessar spurningar og hugleiðingar eiga allar rétt á sér.

Ég hef hlustað á þessa umræðu með athygli og lykilorðin í umræðunni eru að mínu mati fullveldi og þjóðaröryggi, við erum smáríki, og mikilvægi alþjóðlegs samstarfs hefur ekkert breyst að mínu mati síðan 1949. Það var hárrétt ákvörðun að taka þátt í NATO á sínum tíma og það er það enn. Vissulega hafa tegundir og eðli ógnanna tekið breytingum á þessum áratugum, en ógnirnar eru til staðar. Mig langaði til að nefna hér netöryggismálin sérstaklega á þeim litla tíma sem ég hef. Ég held að það hafi verið í gær sem netárás var gerð á norska Stórþingið. Netárásir geta virkjað 5. gr. Atlantshafssáttmálans um NATO og ég er með heilmikinn texta varðandi þá þætti sem snúa að netöryggismálum. En innan NATO er starfrækt sérstök deild um nýjar netöryggisógnir. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að norrænt samstarf er mikilvægt en vera okkar í NATO (Forseti hringir.) er það einnig vegna þess að þar getum við nýtt þá þekkingu og þá vernd sem þar er í boði.