151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp um gjaldeyrismál. Málið hefur ekki vakið mikla athygli en í því felast engu að síður mikil tíðindi fyrir margra hluta sakir. Stærstu tíðindin eru auðvitað að óskað er eftir því að Alþingi staðfesti að krónan sé gjaldmiðill af því tagi að honum sé varlega treystandi. Því sé nauðsynlegt að hafa á takteinum ýmis úrræði til að reyna að koma í veg fyrir þann skaða sem hann getur valdið. Þetta eru auðvitað stórtíðindi en merk fyrir þær sakir að hér er að fullu viðurkennt af þeim sem standa þéttastan vörð um mikilvægi krónunnar að hún geti ekki sinnt því hlutverki sem gjaldmiðill verður að geta gegnt í frjálsu og opnu hagkerfi án þess að víðtæk úrræði til inngripa og hafta séu tiltæk.

Önnur tíðindi eru þau að Seðlabankanum er falið umfangsmikið vald til að grípa til víðtækra gjaldeyrishafta án aðkomu Alþingis. Þegar hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpinu sagðist hann binda vonir við að breyttar áherslur í umgjörð efnahagsmála gerðu það að verkum að við þyrftum aldrei aftur að grípa til þessa neyðarúrræðis. Það er í sömu andrá og hann segir sjálfstæða peningastefnu illa samræmast frjálsu og óheftu flæði fjármagns.

Herra forseti. Því miður held ég að vonir hæstv. ráðherra í þessum efnum séu ekki mikils virði einmitt vegna þess að athygli hans er á fjármagnshöftin en ekki peningastefnuna. Hér verður Alþingi einfaldlega að láta til sín taka. Þetta frumvarp verður að skoða með mjög gagnrýnum augum því að hér er mikið í húfi.