151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

loftslagsmál.

[12:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það eru ýmis sóknartækifæri í nýsköpun, t.d. það sem hæstv. ráðherra nefndi með Carbfix og sömuleiðis tækni til að stunda álframleiðslu þannig að minna verði um losun á koltvísýringi og er það vel. Ég geri ekki ágreining um það að við séum að standast skuldbindingar okkar og ég geri vissulega ekki lítið úr metnaði hæstv. ráðherra í því að standa við þær skuldbindingar. En mér finnst við stundum falla í þá gryfju á Íslandi að einblína um of á auðveldu slagina, hluti þar sem við stöndum betur í raun og veru bara af heppni, vegna þess að landið okkar er á ákveðinn hátt eða staða okkar að öðru leyti.

Það er eitt land í heiminum sem er ekki bara kolvetnishlutlaust heldur kolvetnisneikvætt og það er Bútan. Það er ekki alveg víst að það verði þannig að eilífu en ég velti fyrir mér spurningunni: Getum við orðið kolefnishlutlaus árið 2040? Við ætlum að verða kolefnishlutlaus þannig að betri spurning finnst mér vera: Hvernig getum við náð þeirri stöðu sem fyrst? (Forseti hringir.) Hvaða ár gætum við í fyrsta lagi náð því markmið?