151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

barnalög.

11. mál
[12:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Frá því að ég hóf störf hér á Alþingi árið 2013 hefur það sífellt vakið undrun mína hvernig meiri hlutanum hverju sinni, og ekki bara þessum meiri hluta heldur almennt, finnst oft einhvern veginn skipta meira máli að klára hluti hér í þingsal, sem taka þó ekki gildi fyrr en seinna, en að skoða betur mál sem þegar eru á borðinu. Þá verð ég líka að segja að nokkrir hópar í samfélaginu þurfa að venjast því aðeins of mikið að vera alltaf afgangsstærð, að einhvern veginn þurfi alltaf að hugsa um þá hópa seinna. Einn af þessum hópum er fatlað fólk. Það væri okkur til sóma að klára bara þetta mál þar sem við höfum tímann, tillaga liggur fyrir og ekkert er því til fyrirstöðu að reyna aðeins lengur og aðeins meira. Þingstörfin eru ekki komin í þetta hefðbundna vorástand þar sem þingfundir eru farnir að stíflast og hvaðeina. Við getum þetta, (Forseti hringir.) það liti vel út ef við gerðum þetta, það væri gott fyrir skjólstæðinga okkar ef við gerðum þetta.

Virðulegi forseti. Gerum þetta bara. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)