151. löggjafarþing — 66. fundur,  12. mars 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna stuðnings til smærri innlendra áfengisframleiðenda og heimildar til sölu áfengis á framleiðslustað.

495. mál
[15:00]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég er í fyrsta lagi glaður að hv. þm. Brynjar Níelsson er lögfræðingur en ekki læknir vegna þess að ég hefði miklar áhyggjur af heilsu manna ef hann væri læknir. Ég hefði líka miklar áhyggjur af því að maður eins og hann væri þeirrar gerðar að hann tæki ekki mark á opinberum skýrslum og opinberri umræðu.

Það kann vel að vera að Bretar hlæi að okkur vegna strangrar áfengislöggjafar. En staðreyndin er sú að Bretar eru gjörsamlega að drukkna í áfengi. Þar eru áfengistengd vandamál stærri og meiri en víðast hvar annars staðar í álfunni og Bretar lifa að jafnaði fimm árum skemur en meðal Íslendingurinn. En ég ætlaði í sjálfu sér ekki að tala um þetta. Þetta knúði mig bara upp vegna þess að þegar svona málfundaæfingar eru tíðkaðar hér í ræðustóli Alþingis, sem er opinn öllum og allir geta sagt hvað sem þeir vilja, þá verður maður aðeins að spyrna við fótum þegar farið er beinlínis með rangt mál. Skorpulifur skiptir engu máli, segir hv. þm. Brynjar Níelsson. Ja, það kann vel að vera að skorpulifur skipti ekki máli. Hún drepur fólk fyrir aldur fram og það er kannski það sem skiptir máli í þessu sambandi.

Frumvarp dómsmálaráðherra hefur verið til umræðu töluvert mikið í nefnd þar sem ég sit og það frumvarp er svona eins og farandsölumaður sem setur löppina í dyrnar og svo koma aðrir á eftir og gatið stækkar. Og það stóð ekki á því, Framsóknarflokkurinn kemur hér fram og yfirbýður dómsmálaráðherra, býður betur. Hann býður upp á milljón lítra framleiðslu í staðinn fyrir hálfa milljón og býður upp á það að menn geti keypt eitthvað meira magn á framleiðslustað en dómsmálaráðherra býður. Síðan kemur hv. þm. Brynjar Níelsson og vill bara galopna allt og selja öllum allt og það á engar afleiðingar að hafa. Hann svaraði ekki spurningu minni um það hvernig ætti að bregðast við heilsufarsvandamálum vegna aukinnar áfengisdrykkju, hvort það ætti að gera með hærri sköttum eða hvernig það ætti að gerast, af því að hvorki ég né hv. þm. Brynjar Níelsson erum hrifnir af háum sköttum.

Það stóð einhvers staðar að það sé ekki til neitt sem heitir frír hádegisverður. Það er töluvert til í því og það er heldur ekki til neitt sem heitir frír sjúss vegna þess að sá sem drekkur verður fyrir áhrifum á marga lund. Ef sjússarnir eru mjög margir og ítrekaðir þá valda þeir heilsuskaða. Ég held að ef hv. þm. Brynjar Níelsson myndi tala við heilbrigðisstarfsmann, bara einhvern heilbrigðisstarfsmann, bara einn heilbrigðisstarfsmann, og myndi spyrja hann hvort áfengisneysla yfir höfuð, lítil eða miðlungs eða mikil, skaði heilsu, þá myndi hann fá svar um það að öll áfengisneysla skaði, lítil líka, hún skaðar bara minna. Það eru líklega 30 tegundir af krabbameini sem mikil áfengisneysla örvar.

Það er líka vísindalega sannað, og ég vona að hv. þm. Brynjar Níelsson sé að hlusta á mig núna þótt hann sé ekki í salnum, að aukin drykkja undanfarin ár hefur verið vegna þess að drykkja kvenna eykst meira en drykkja karla. Hvernig skilar það sér, herra forseti? Það skilar sér í aukningu á brjóstakrabbameinum vegna þess að brjóstakrabbamein eru t.d. meðal þeirra krabbameina sem örvast af aukinni áfengisneyslu. Þau 30 krabbamein sem ég nefndi áðan eru alveg frá koki og niður í endaþarm, með nokkrum stoppistöðvum á leiðinni.

Ef hv. þm. Brynjar Níelsson myndi láta svo lítið að lesa eins og eina skýrslu, eða bara það helsta úr skýrslu, frá t.d. Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, þá myndi hann heyra og sjá það sjónarmið sem ég var með hér áðan úr fornöldinni, að ríkiseinkasala á áfengi, eins og er á Íslandi, sé öfundarefni annarra þjóða. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur meira að segja hvatt til þess að aðrar þjóðir taki upp slíka einkasölu. Það er ekki af því að ríkisstarfsmenn séu betur til þess fallnir að selja áfengi en einhverjir aðrir, heldur vegna þess sem hér kom fram áðan, að aukið aðgengi eykur drykkju sem eykur vandamál. Það er alveg sama hvort áfengi er bannað alfarið, við reyndum það á tímabili, menn drekka engu að síður. Menn brugguðu, menn smygluðu. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir að sá sem hefur mikinn þorsta fyrir áfengi nær í áfengi, hvernig sem hann fer að því, hvort sem hann pantar það í póstkröfu innan lands eða erlendis, hvort sem hann fer í ríkið eða fer á bar, þá nær hann sér í áfengi. Viss hluti af þýðinu, svona sirka 18%, ef ég man rétt, samkvæmt skýrslunni, á í vandræðum með áfengi og nær sér í það.

Hv. þingmaður segir: Léttvín og bjór er bara eins og maturinn okkar og það sést nú á sumum að þeir kunna sér ekki hóf í mataræði heldur. Það blasir við hverjum manni að t.d. sá sem hér stendur í ræðustól gæti misst úr máltíð án þess að skaðast af því. En það hefur ekkert með það að gera. Þótt ég sé feitur vil ég ekki láta banna mat bara af því að ég borða of mikið. (Gripið fram í.) Ég heyrði þetta ekki. En ef fólk telur það forræðishyggju að vilja stýra neyslu á þessu þá skal ég gangast við því að vera forræðishyggjumaður. Ég er á móti asbesti. Ég er mikið fyrir það að menn noti öryggisbelti á ferð. Ég vil að börn séu í barnabílstólum. Það er náttúrlega alveg hrein forræðishyggja, ég viðurkenni það strax.

En það er bara þannig, herra forseti, og þetta á fyrrverandi formaður Lögmannafélagsins að vita: Lög og reglur eru oft og tíðum settar til að hafa vit fyrir fólki. Fullt af lagasetningu sem við gusum hér í gegn er beinlínis til þess fallið að hafa vit fyrir fólki. Ég er ekki viss um og ekki sannfærður um að það sé alltaf í öllum tilfellum rétt en það er gert fyrir því. Þá segi ég aftur: Við að hlusta á ræðu hv. þm. Brynjars Níelssonar áðan hoppaði ég í 50 ár aftur í tímann á málfund hjá málfundafélaginu í Versló þar sem menn voru alveg örugglega enn á þeim tíma að tala um hvað hafi verið vitlaust að ekki væri hægt að fá bjór á Íslandi, þetta er sem sagt fyrir komu hans ef menn velkjast í vafa um það, og töluðu með og á móti. Það er alveg hárrétt, að ég tel, að allflest af þeim varnaðarorðum sem komu fram þegar við opnuðum fyrir bjórsölu á Íslandi hefur komið fram. Vil ég banna bjór? Nei. Vil ég banna allt áfengi? Nei. En við eigum samt að læra af reynslunni, það læra allir af reynslunni. Tilraunarottur læra af reynslunni. Þær brenna sig fjórum sinnum og svo finna þær ostinn. Af hverju eigum við að brenna okkur á sama soðinu aftur og aftur?

Talandi um skatta, hv. þm. Brynjar Níelsson svaraði ekki spurningu minni áðan. Ég spurði hvernig hann vildi standa straum af auknum heilbrigðiskostnaði vegna áfengisneyslu í framtíðinni þegar við vitum að skref sem við stígum mun leiða til heilbrigðisvandamála síðar. Þá eigum við náttúrlega að gera grein og gera ráð fyrir því í kostnaðarútreikningum okkar. — Herra forseti. Ég bið menn að sýna mér þá virðingu að vera ekki með hávaða í salnum.

Að öðru leyti vil ég segja aftur að það kann vel að vera forræðishyggja að vilja stýra neyslu áfengis með sölufyrirkomulagi. Fjölmargir mæla því bót, sérstaklega þeir sem eru menntaðir á sviði læknisfræði, sérstaklega þeir sem eru starfandi á sviði læknisfræði og lýðheilsufræði og ég segi aftur: Það myndi ekki drepa hv. þm. Brynjar Níelsson að lesa þó ekki væri nema fyrirsögn á einni skýrslu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni til að sjá og sannfærast um það hvað aukin áfengisneysla gerir fyrir heilsufar.

Ég er satt að segja orðinn alveg hundleiður á því — af því að nokkrar umræður hafa farið hér fram á síðustu árum á Alþingi Íslendinga um aukið frjálsræði í áfengisviðskiptum, og það stendur upp úr hverjum manninum á fætur öðrum: Ja, það er nú allt í lagi með mig, ég gríp bara eina rauðvínsflösku eða eitthvað slíkt með mér, en svo eru aftur á móti aðrir sem ráða ekki við þetta en það er allt í lagi með mig. Má ég vitna í Bjartmar Guðmundsson, herra forseti? „Ég er ekki einn af þeim sem sofna fullur/ég er ekki einn af þeim sem vakna skel.“

Það kom samt fram að sá ágæti maður sem þar er um rætt átti við talsverðan áfengisvanda að stríða, þótt viðlagið sé „ég er ekki alki fyrir fimm aura“ í kvæði Bjartmars blessaðs. En það breytir ekki því að við erum ekkert að hugsa um það hvort ég eða hv. þm. Brynjar Níelsson kunnum eða kunnum ekki að fara með áfengi. Við erum ekkert að velta því fyrir okkur. Við erum að velta því fyrir okkur hvort aukið aðgengi að áfengi hefur áhrif á heilsu þjóðarinnar sem heildar. Við erum heldur ekki einu sinni að hugsa um þau 18% sem er gefið að verða fyrir vandræðum heldur almennt. Eysteinn Jónsson talaði um almenna farsæld og við eigum að hugsa um almenna farsæld. Einhver jaðartilvik eins og ég og hv. þm. Brynjar Níelsson eru ekki það sem málið snýst um og það að annar sé með aðra löppina á steinöldinni og hinn sé kominn framar á veg skiptir ekki öllu máli. Við eigum að horfa á afleiðingar þess sem við samþykkjum á þinginu hverju sinni. Þetta kom reyndar aðeins fyrr en ég átti von á. Frumvarp dómsmálaráðherra er svona eins og sölumaður sem kemur löppinni í dyrnar. Ég átti ekki von á því að Framsóknarflokkurinn kæmi með klossa rétt á eftir til að komast inn um sömu dyr. En það gerðist. Auðvitað er öllum frjálst að yfirbjóða og það gera menn eftir því sem þeir geta.

Síðan verð ég að minnast á eitt enn sem fram kom í ræðu hv. þm. Brynjars Níelssonar. Ég hef heyrt það sjónarmið áður, reyndar frá gesti í allsherjarnefnd þingsins, sem við vitnum ekki til, en það er að hleypa stóru brugghúsunum í þetta líka, að framleiða og opna lítil handverkshús.

Herra forseti. Ég verð að segja: Þetta er bara eins og að koma fram með tillögu um að Mjólkursamsalan fái að opna útibú við hliðina á Örnu. Þetta er alveg nákvæmlega eins, vegna þess að ef eitthvað er þá eru tvö stóru brugghúsin á Íslandi með enn stærri markaðshlutdeild en Mjólkursamsalan á sínum sviðum. Menn segja: Heyrðu, eigum við ekki bara að leyfa Agli og Víking að vera með í litlu handverkshúsunum og stúta þessum litlu sprotum sem eru úti um allt? Samt eru þessir menn að segja: Heyrðu, jú, við viljum endilega að þessir litlu sprotar fái að dafna og eitthvað svoleiðis, en þeir tala þvert um hug sinn nema þeir séu bara tala í hring, nema þeir hafi ekki kynnt sér málið eða hafi hreinlega ekkert vit á því sem þeir eru að tala um. Það eru allt saman möguleikar.

Síðan koma menn með algjöra rakaleysu og málfundaæfingar frá því fyrir 50 árum og segja: Þetta verður allt í fína, það verður bara allt í lagi. Og lýðheilsa, hvað er það? En það er bara það sem ég sagði áðan, mér er svo vel við Íslendinga og þykir svo vænt um þá að ég vil að þeir verði langlífir. Ég vil ekki stytta líf þeirra um tvö til fimm ár, svona að jafnaði. En það er akkúrat það sem er að gerast í nágrannalöndunum þar sem allt er frjálst og fínt. Menn hafa talað mikið um unglingadrykkju og jú, sem betur fer höfum við náð miklum árangri þar. Danir, Englendingar, Íslendingar og Svíar eru í vandræðum með annað, það er öldungadrykkja. Það heitir í Danmörku vota kynslóðin. Í áróðursbæklingum, því að Danir eru líka með áróðursbæklinga fyrir því að menn drekki minna, er slagorðið þetta: Ekki drekka eins og afi og amma. Það er slagorðið. Ekki drekka eins og afi og amma, vegna þess að öldungadrykkjan þar er á sama stað og hér. Þá segi ég aftur: Mér þykir vænt um Íslendinga, ég vil að þeir verði langlífir. Ég vil ekki að við séum að taka fyrir möguleika þeirra til að verða langlífir. Þess vegna skil ég ekki ræður eins og ræðu hv. þm. Brynjars Níelssonar áðan, nema fyrir skemmtigildið sem hún hafði.