151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

fullnusta refsinga.

569. mál
[15:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég byrjaði að lesa þetta frumvarp leist mér heldur vel á það. Það vakna samt spurningar hjá mér í sambandi við tilganginn með því, þ.e. forsendurnar sem liggja að baki því að þessi breyting sé gerð, og þá sér í lagi hvernig það endurspeglast í því atriði að þetta eru bráðabirgðaákvæði. Mér að vitandi er samfélagsþjónusta úrræði sem getur virkað ágætlega, alla vega fyrir einhvern hóp af föngum. Ég verð að segja að ég varð svolítið hissa á því að það úrræði sem fangi hefur mögulega val um afmarkist af einhverju eins og því hversu langur boðunarlistinn er, eitthvað sem fanginn hefur engin völd yfir, eitthvað sem afbrot fangans hefur ekkert með að gera og eitthvað sem áhrif fangelsisvistarinnar sjálfrar hafa ekkert með að gera, nema að því leyti að möguleikinn er til bóta. Mögulega alla vega. Mér finnst svolítið skrýtið að hafa þetta tímabundið út frá þessum forsendum. Þannig að ég velti fyrir mér og spyr hæstv. dómsmálaráðherra: Var eitthvað skoðað að hafa þetta ákvæði varanlegt? Og ef ekki, af hverju ekki? Sömuleiðis, er þá ekki viðbúið, ef það er ekki varanlegt, að sami vandi verði einfaldlega til staðar síðar?