151. löggjafarþing — 68. fundur,  17. mars 2021.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

602. mál
[17:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég átta mig á því að þetta frumvarp snýst ekki um inntakið eins og ég vil beita því. Það var gagnrýni mín, virðulegi forseti, enda er ég ekki hlynntur þessu frumvarpi og mun ekki greiða atkvæði með því. Það er vegna þess að það fjallar ekki um hlutina á þann hátt sem ég vildi gera. Að hæstv. dómsmálaráðherra hafi lagt það fram eru ekki rök gegn málflutningi þess sem hér stendur.

Hvað varðar Ungverjaland hlýtur hæstv. dómsmálaráðherra að vera að tala um einhvern annan hóp en sá sem hér stendur því að ég vísaði í greinargerð frumvarpsins. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Af þeim umsóknum sem bárust á tímabilinu 15. júní til ársloka 2020 voru um 70% mála, eða 288 af 407 umsóknum, frá einstaklingum sem þegar hafa hlotið alþjóðlega vernd í Evrópu, svo sem Ungverjalandi, Grikklandi og Ítalíu.“

Virðulegi forseti. Ég hef gögn mín úr frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra. Ef talan er 0, átta ég mig ekki á því hvers vegna þarna stendur „Ungverjalandi“ (Gripið fram í.) í nákvæmlega þeim hópi sem ég var að tala um. (Dómsmrh.: … er ekki sent til baka.) Hæstv. ráðherra er hugsanlega að tala um einhvern annan hóp, (Dómsmrh.: Nei.) en ég er að tala um þennan hóp. (Gripið fram í.)

Mér þykir svo áberandi í málflutningi hæstv. dómsmálaráðherra og fleiri að það er alltaf látið í orðræðunni, sér í lagi frá yfirvöldum og sér í lagi frá ráðherrum Sjálfstæðisflokksins og sér í lagi dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins, eins og kerfið eins og við höfum ákveðið að nálgast það hljóti að vera rétt, og að alltaf þegar við gerum það kerfi skilvirkara séum við að gera rétt. Það er misskilningur, virðulegi forseti. Við nálgumst vandann á kolrangan átt og dómsmálaráðherra ætti frekar að tala við hin Evrópulöndin um það hvernig við gætum sameiginlega, Evrópa, tekið á móti fleiri og dreift þannig álaginu, sem er tímabundið, víðar um Evrópu, frekar en að ríkin bítist um það hvernig hvert og eitt þeirra geti tekið við sem fæstum. Það er vandamálið, virðulegi forseti. Ég kann svo sem ekki að skýra þetta betur en ég gerði í umræðunni áðan, (Forseti hringir.) en ég hygg að hæstv. dómsmálaráðherra sé annaðhvort að snúa út úr því sem ég sagði eða tala um einhvern allt annan hlut. Ég ætla að vera gjöfull gagnvart því og gera ráð fyrir hinu síðarnefnda.