151. löggjafarþing — 71. fundur,  18. mars 2021.

aðgerðir til að styrkja stöðu íslensks landbúnaðar.

[15:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Nýsköpun þrífst best við frelsi og stuðning. Stundum er ákveðin mótsögn þarna á milli. Stuðningurinn felur í sér hin og þessi skilyrði, hinar og þessar reglur eða eitthvað annað sem þrengir allan rammann. Það er venjulega gert til að tryggja að fé rati á réttan stað. Dæmi um þetta er almannatryggingakerfið og flest kerfi sem eru hugsuð til að styðja afmarkaða hópa. Ef við getum sett á fót kerfi sem veitir fjárhagslegan stuðning án þess að hafa slíkt regluverk að það hindri nýja hugsun og hindri nýsköpun í einhverjum geira, þá eigum við að grípa tækifæri til tilrauna í þeim efnum þegar þau gefast. Ég hygg að það séu nokkur svið í samfélagi okkar sem henta betur en önnur til að velta upp slíkum hugmyndum og rannsaka hversu gjöfular þær gætu verið í því að efla nýsköpun og nýja hugsun inn í framtíðina. Það er ekki bara þessi almenna krafa okkar nú til dags um nýsköpun sem knýr þar á heldur einnig breytingar á umhverfi okkar og náttúru, sem er óhjákvæmilegar að mörgu leyti og verða reyndar sífellt meira yfirþyrmandi.

Það verður að mínu mati sífellt meiri þörf á því að hugsa út fyrir kassann um það hvernig við ætlum að halda uppi hinni eða þessari framleiðslu. Þá á ég einnig við hluti eins og sjávarútveg sem við erum ekki vön að sjá hverfa á skömmum tíma nema kannski einstaka stofna, en það er mjög raunveruleg ógn að við verðum fyrir alvarlegum skakkaföllum á næstu örfáu áratugum sökum loftslagsbreytinga. Það knýr áfram þörfina á nýrri hugsun og til þess þurfa aðilar í geiranum að hafa bæði stuðning yfirvalda og frelsi til að nýta þann stuðning eftir eigin höfði með sem fæstum reglum.