151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[19:04]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég flyt nefndarálit um tillögu til þingsályktunar um menntastefnu fyrir árin 2020–2030 frá allsherjar- og menntamálanefnd. Markmið menntastefnunnar er að veita framúrskarandi menntun í umhverfi þar sem allir geta lært og allir skipta máli. Því er leiðarljós menntastefnu þrautseigja, hugrekki, þekking og hamingja og er því ætlað að styðja við framtíðarsýnina. Skýr stefna um forgangsröðun í þágu menntunar og þekkingarsköpunar eykur lífsgæði og verðmætasköpun. Með henni er lagður grunnur að sterkara samfélagi.

Menntastefna þessi var unnin í víðtæku samráði við hagsmunaaðila og var m.a. birt í samráðsgátt. Alls bárust 38 umsagnir sem voru jákvæðar í garð stefnunnar. Í umsögnum komu fram ýmsar gagnlegar athugasemdir sem brugðist var við. Ég ætla ekki að lesa nefndarálitið allt en það er ansi efnismikið, enda er þetta stórt og mikilvægt mál. Hér erum við að leggja línurnar fyrir næsta áratuginn, hvernig við sjáum menntakerfið þroskast og þróast, m.a. í samræmi við þarfir atvinnulífsins og til að bregðast við tækniþróun og öðrum breytingum sem eiga sér stað mjög hratt í samfélaginu.

Eins og áður segir bárust fjölmargar umsagnir sem eru taldar upp í nefndarálitinu og nefndin fékk einnig á sinn fund fjölmarga aðila, þó ekki alla. Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að fyrir mitt leyti fannst mér umsagnirnar undantekningarlaust mjög efnismiklar og þær innihéldu allar atriði sem skiptu mjög miklu máli fyrir vinnu nefndarinnar. Þetta voru ekki endurtekningar heldur ný og mikilvæg sjónarmið sem við tókum tillit til þegar við ákváðum hvernig nefndarálitið skyldi nú líta út og einnig hvort og með hvaða hætti breytingartillögurnar skyldu lagðar fram. Rauði þráðurinn, það sem allir umsagnaraðilar voru nokkuð sammála um, er mikilvægi þess að menntastefna sé komin fram. Lögð var áhersla á að innleiðingaráætlanir sem gerðar verða í framhaldi af þessari stefnu verði gerðar í nánu samtali við hagaðila og einnig að aðgerðir séu fjármagnaðar. Við getum náttúrlega endalaust lagt fram nýjar og nýjar stefnur en til að koma hlutunum í framkvæmd þarf að fylgja fjármagn, eins og við vitum. Einnig var lögð áhersla á eftirfylgni með stefnunni og þar yrði að vera skýr forgangsröðun, að verkefnum yrði forgangsraðað þar sem öllum markmiðum verður örugglega ekki náð í einum áfanga. Einnig var bent á að mikilvægt væri að líta til þeirrar vinnu sem þegar hefur verið unnin. Hér í nefndaráliti eru taldar upp fjölmargar skýrslur og vinna ólíkra hópa sem snúa að menntakerfinu. Sú vinna skiptir máli fyrir áframhaldandi vinnu, að við gleymum því ekki sem vel hefur verið gert hingað til.

Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að stefnan væri fyrst og fremst miðuð að menntun í leik,- grunn- og framhaldsskólum en tæki ekki mið af sí- og endurmenntunarkerfinu, hinni svokölluðu fimmtu stoð í menntakerfinu. Að því virtu áréttar nefndin að menntastefnunni er ætlað að taka á öllum þáttum menntakerfisins, allt frá leikskólanámi til háskóla og sí- og endurmenntunarkerfisins.

Um þetta skapaðist töluverð umræða og mikill samhljómur var um að halda yrði þessu atriði til haga.

Nefndin áréttar að menntastefnunni er ætlað að ramma inn þær áherslur sem settar verða í forgrunn í menntakerfinu næstu tíu árin. Einstaka atriði og aðgerðir verða lagðar fram í innleiðingaráætlun en fyrstu áætlunina á að leggja fram og kynna af ráðherra innan sex mánaða frá samþykkt tillögunnar. Að mati nefndarinnar er mikilvægt að við innleiðinguna liggi fyrir skýr verkáætlun og stefna, þar á meðal forgangsröðun verkefna, kostnaðarmat og skilgreining á ábyrgð og hlutverki við innleiðingu og útfærslu.

Þetta atriði vil ég undirstrika alveg sérstaklega af því að það er oft svo, ekki bara hjá okkur í stjórnsýslunni heldur í fyrirtækjum almennt, að menn eru sammála um mikilvægi verkefna og breytinga en svo skortir oft upp á eftirfylgnina og að það séu mælanleg markmið og skýr ábyrgðarskipting á milli aðila þannig að hlutirnir séu ekki að þvælast um og lítið verði úr verkum. Þarna vil ég doka við, hæstv. forseti, og undirstrika þetta, að fjármagn fylgi, forgangsröðun sé skýr, kostnaðarmat, ábyrgðarskipting, mælanleg markmið og eftirfylgni. Þetta skiptir mjög miklu máli ef við ætlum okkur að ná árangri og ná fram jákvæðum og nauðsynlegum breytingum á menntakerfinu.

Í nefndarálitinu er kafli um jöfn tækifæri fyrir alla sem er eitt af meginmarkmiðum menntastefnunnar. Í umsögnum var nefnt, og töluverð umræða varð um það, námsframboð fyrir fólk með fötlun. Enn skortir á að nægilegt námsframboð sé fyrir fólk með fötlun og bent var á að í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland hefur fullgilt, kemur fram að koma skuli á menntakerfi á öllum skólastigum án aðgreiningar og ævinámi. Nefndin áréttar að við innleiðingu menntastefnunnar verði tekið mið af þessu. Einnig var tekið fram að halda þyrfti vel utan um nemendur af erlendum uppruna þannig að þeir geti staðið jafnfætis öðrum, einnig að tryggja aðgengi nemenda á landsbyggðinni að námi við hæfi og almennt fyrir alla hópa þjóðfélagsins. Hvað varðar hinar dreifðari byggðir þá leggur nefndin einnig áherslu á að við þurfum að horfa til þess enn frekar að nýta þá tækni sem fyrir er til að þjónusta fólk sem best vítt og breitt um landið, til að auka aðgengi og efla nám. Covid-faraldurinn hefur gefið okkur ákveðna innsýn og kannski upptakt að því verkefni. Við erum flestöll farin að kynnast betur hvernig það er og hvaða tækifæri eru fólgin í því að geta nýtt tæknina til að nálgast nýja þekkingu. En þessi tækni og aukið aðgengi að námi á ekki síður við fólk með fötlun sem notar kannski, vegna fötlunar sinnar, aðrar tjáskiptaaðferðir eða á erfitt með, vegna annarrar hömlunar, að fara ótt og títt á milli staða. Þetta gæti auðveldað þeim hópi t.d. að sækja sér menntun þannig að þarna eru gríðarleg tækifæri sem nefndin vill leggja áherslu á, nýta tæknina enn frekar til að jafna stöðu fólks.

Hæstv. forseti. Í nefndarálitinu er einnig talað um að sérstaklega þurfi að huga að snemmtækum stuðningi og samspili þjónustukerfa. Sjá þarf til þess að öll börn fái þjónustu við sitt hæfi og viðeigandi stuðning svo að þau missi ekki af tækifærum til náms og þroska. Í því tilliti bendir nefndin á frumvarp félags- og barnamálaráðherra um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, 354. mál sem fjallað var hér um á yfirstandandi löggjafarþingi, þar sem lögð er áhersla á snemmtækan stuðning, samfellu í þjónustu og samvinnu þvert á málaflokka. Þetta skarast auðvitað að hluta til við framkvæmd og innleiðingu á menntastefnunni og verður að horfa til þess.

Nefndinni bárust umsagnir — nú man ég ekki í augnablikinu frá hverjum, ég er ekki með möppuna með mér — þar sem okkur var bent á mikilvægi þroskaprófa. Við vildum hafa það með í álitinu vegna þess að þetta atriði skiptir kannski meira máli en maður áttar sig á við fyrstu sýn, þ.e. að þroskaprófin séu í fyrsta lagi tiltæk og í öðru lagi uppfærð með tilliti til nýjustu rannsókna og upplýsinga. Þroskapróf mæla stöðu nemenda og það er mikilvægt til þess að átta sig á hvar nemandinn er staddur svo að hægt sé að veita honum þá þjónustu og þann stuðning sem mögulega þarf. Markmiðið er jú að veita öllum jöfn tækifæri til náms og stuðning við hæfi, eins og ég sagði áðan. Þess vegna þurfum við að geta mætt nemendum þar sem þeir standa. Okkur nefndarmönnum var bent á að þau próf sem notuð eru hér á landi uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru með tilliti til nýjustu greindarkenninga, almennrar þróunar í málumhverfi og þekkingar barna hér á landi og tækniþróunar. Þá beri engin stofnun eða opinber aðili ábyrgð á þroskaprófum hérlendis.

Hér er augljóslega, hæstv. forseti, um mikla brotalöm að ræða sem hv. allsherjar- og menntamálanefnd telur afar mikilvægt að verði löguð og verði tekin til nánari skoðunar við framkvæmd menntastefnunnar. Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að þetta kom mér verulega á óvart. Maður gerði einhvern veginn ráð fyrir því að allt væri eins og það ætti að vera vegna þess að þetta er svo mikil undirstaða þess að við getum mætt nemendum og aðstoðað þau og tryggt jöfn tækifæri sem við viljum að séu til staðar fyrir öll börn og allt fólk. Þetta má ekki gleymast í vinnunni sem fram undan er.

Næsti kafli í nefndarálitinu fjallar um kennslu í fremstu röð. Til að gera langa sögu stutta þá er hér fjallað um að mikilvægt sé að tryggja vinnuumhverfi kennara. Við erum að útskrifa fjölmarga kennara árlega og kennaramenntuðu fólki hefur fjölgað en á sama tíma starfar fólk með kennaramenntun ekkert endilega við kennslu. Það geta auðvitað verið ýmsar ástæður fyrir því. En hluti af ástæðunni kann að vera að starfsumhverfi kennara sé einfaldlega of krefjandi og mögulega nær kennaramenntunin ekki nægilega utan um það að undirbúa kennaranema fyrir það flókna starfsumhverfi sem þeir þurfa að takast á við. Það vantar mögulega inn í kennslu um ólíkar kennsluaðferðir og að auka þurft t.d. kennslu varðandi kynfræðslu, öryggi í stafrænu samfélagi, fjármálalæsi og fjölmargt fleira sem hefur kannski vantað svolítið upp á í kennaranáminu. Til að kennararnir geti kennt þetta allt saman þurfa þeir auðvitað sjálfir að fá slíka fræðslu í sínu námi og einnig, eins og ég sagði áðan, undirbúning til að takast á við fjölbreytta nemendahópa og ólíkar þarfir. Samfélagið er ekki eins einsleitt í dag og það var kannski fyrir 20 árum, hvað þá 30 árum.

Þá komum við inn á mönnun í skólunum og hvernig hægt er að styrkja kennara þegar þeir eru komnir inn í skólana og farnir að taka við nemendum og aðstoða þá og kenna þeim. Þetta er erfitt starf, þetta er krefjandi starf og vinnuálag á kennara er almennt mjög mikið. Þeir eru kannski ekki bara að kenna í skólastofunni heldur þurfa líka oft að takast á við flókna hluti sem koma upp í lífi nemenda þeirra og jafnvel heilu fjölskyldnanna. Þetta veldur gríðarlega mikilli streitu og álagi. Það er því smákafli hér, hæstv. forseti, um áherslu nefndarinnar á að mikilvægt sé að fagfólk verði sýnilegra í menntakerfinu til að þjónusta þau börn sem þurfa á sértækum úrræðum að halda og einnig til að styrkja og styðja við kennarana til þess að þeir geti tekið vel á móti og sinnt þeim fjölbreytta hópi sem er í skólakerfinu. Þar kemur einnig fram að til þess að geta staðist samanburð við nágrannalönd okkar þarf að gera betur í því að fá fagstéttir inn í skólana og minnka þar með álag á kennara og veita nemendum aukinn stuðning. Hérna eigum við við náms- og starfsráðgjafa, félagsráðgjafa og sálfræðinga og slíkar starfsstéttir, iðjuþjálfa og svoleiðis, sem skipta mjög miklu máli til að tryggja sem best starfsumhverfi fyrir kennara og einnig stuðning við nemendur í skólum landsins.

Næsti kafli fjallar um hæfni fyrir framtíðina og í álitinu er fjallað um stöðu drengja í menntakerfinu en niðurstaða kannana sýnir að allt að 34% drengja geta ekki lesið sér til gagns. Drengir skila sér líka verr í framhaldsskólana og háskólana. Við fjölluðum mikið um þetta í nefndinni og fengum umsagnir og upplýsingar sem voru mjög upplýsandi. Þetta atriði, staða drengja í menntakerfinu, þarf að taka til sérstakrar skoðunar og finna árangursríkar leiðir til að vinna bug á vandanum. Við leggjum áherslu á að taka upp fjölbreyttari mælingar á lestrarkunnáttu og sjá til þess að lestrarkennsla og mælingar á lestrarhæfni séu færðar inn í nútímann og sýni raunverulega hæfni nemenda til að lesa sér til gagns. Hingað til hefur mikil áhersla verið lögð á hraðamælingar í lestri. Þetta er atriði sem við töldum mikilvægt að færa inn í nefndarálitið til frekari skoðunar í vinnunni.

Hér er nefndur þjóðarsáttmáli um læsi sem hófst haustið 2015 en sá sáttmáli fjallaði um og hafði það markmið að öll börn geti við lok grunnskóla lesið sér til gagns. Verkefnið var fjármagnað til fimm ára og að baki því liggur mikil fjárfesting. Nefndin telur því mikilvægt að við innleiðingu stefnunnar verði litið til þessa verkefnis og kannað hvort halda megi áfram með það enda er það í samræmi við áherslu stefnunnar, m.a. á lesskilning. Þá áréttar nefndin mikilvægi þess að læsi verði ekki skilgreint of þröngt. Menningarlæsi, fjármálalæsi, upplýsingalæsi, tæknilæsi og náttúrulæsi er allt grundvallarhæfni sem menntakerfið þarf að geta byggt upp hjá einstaklingum og nýtast munu samfélaginu öllu. Auk þess er mikilvægt að leggja áherslu á stafræna þekkingu, umhverfismál og sjálfbærni.

Þá telur nefndin mikilvægt að nemendur kunni að leita að upplýsingum, meta áreiðanleika þeirra og geti nýtt sér þær upplýsingaveitur sem þeir hafa. Í því samhengi eru bókasöfn mikilvæg og þá sérstaklega skólabókasöfn. Nefndin fékk á sinn fund fulltrúa frá skólabókasöfnum og einnig umsögn frá þeim. Skólabókasöfnin hafa hlutverki að gegna í menntun barna.

Mikil umræða hefur verið um starfs-, iðn- og tækninám. Staðan er sú að okkur hefur frekar skort fólk þar, ég veit ekki hvernig ég á að orða þetta en það hefur kannski ekki endilega verið í tísku hingað til, ég vona að það sé að breytast, að fara í slíkt nám. Það hefur þótt eitthvað annars flokks, sem er náttúrlega stórundarlegt vegna þess að við þurfum á fjölbreyttri menntun að halda til að styðja við atvinnulífið og auka velmegun þjóðarinnar. Við þurfum fólk sem býr yfir skapandi hugsun, er lausnamiðað og getur horft svolítið út fyrir kassann. Það er ekki síst mikilvægt nú á tímum þegar öll þessi tækniþróun er eins hröð og hún er. Við þurfum kannski ekki að kasta því sem við áður höfum stuðst við, við þurfum auðvitað alltaf að halda því til haga, en við þurfum að hlaupa hraðar og vera vel vakandi. Starfs-, iðn- og tækninám hefur alltaf verið mikilvægt en ekki síst núna. Nefndin orðar það þannig í álitinu að það þurfi að gera meira af því að kynna ungu fólki betur þess konar nám og kynna það betur fyrir þeim tækifærum sem slíkt nám felur í sér og kynna það líka fyrir grunnskólanemendum þannig að þau fái innsýn í iðn- og tæknigreinarnar. Þá aukast kannski líkurnar á því að fólk velji að stunda slíkt nám þegar það hefur aldur til.

Svo er hér einnig töluvert mikilvægur punktur, hæstv. forseti, varðandi upplýsingagjöf, ekki bara til grunnskólabarna heldur einnig til þeirra sem eru á vinnumarkaði, þ.e. að leggja áherslu á náms- og starfsráðgjöf og kynningar og upplýsingagjöf til allra, sérstaklega þeirra sem hafa litla sem enga formlega menntun. Fólk áttar sig þá betur á tækifærunum sem það hefur þótt það sé komið út á vinnumarkaðinn til að bæta við sig þekkingu í takt við þarfir vinnumarkaðarins og einnig til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. Jafnframt segir hér, hæstv. forseti, að taka þurfti til skoðunar hvort það þurfi námskrá um nám utan hins hefðbundna skólakerfis. Í ljósi þess að vinnumarkaðurinn sætir sífelldum breytingum þurfum við að bregðast við því í menntakerfinu. Þannig þurfi að tryggja að vinnandi fólk geti aukið hæfni sína til að fylgja ákalli atvinnulífsins um þekkingu og hæfni starfsfólks.

Nefndinni var bent á að ekki er fyrir hendi langtímakortlagning á menntunar- og færniþörf á vinnumarkaði. Þetta er eitthvað sem þarf klárlega að bæta úr. Nágrannaþjóðir okkar eru með slíkar langtímakortlagningar og við getum alveg farið í slíkt verkefni. Það borgar sig til lengri tíma, ekki síst með tilliti til áskorana fjórðu iðnbyltingarinnar, eins og segir hér, þar sem niðurstöður slíks spáferils auðvelda mótun menntastefnu og bæta samspil menntakerfis og vinnumarkaðar.

Við meðferð málsins voru gerðar athugasemdir um að í menntastefnunni komi ekkert fram um hæfniramma um menntun sem lýsi hæfniviðmiðum um þær kröfur sem séu gerðar við námslok á hverju skólastigi og í atvinnulífinu. Þá auki íslenski hæfniramminn, ef hann yrði nú gerður, gagnsæi menntakerfisins og auðveldi samanburð við önnur menntakerfi í Evrópu sem einnig byggjast á evrópska hæfnirammanum. Það myndi auka möguleika Íslendinga til að leita sér viðbótarþekkingar erlendis, eða kannski ekki endilega auka en einfalda og gera það aðgengilegra þar sem hæfnirammarnir væru samræmdir við önnur menntakerfi Evrópu og byggðust á evrópska hæfnirammanum.

Tíminn flýgur frá manni þegar maður hefur mikið að segja en ég er langt komin, hæstv. forseti.

Í næsta kafla, um vellíðan í öndvegi, þá metur nefndin það svo að auka þurfi áherslu á þjónustu sálfræðinga sem og náms- og starfsráðgjafa og félagsfræðinga innan veggja skólanna. Þetta tengist því sem ég sagði hér áðan um starfsaðstöðu kennara og þjónustu við nemendur.

Í kaflanum um gæði í forgrunni er talað um tækni og stafrænan heim og breytingar sem fylgja tæknibreytingum, öryggi, siðferði og ungt fólk. Gæta þarf að því að allir hafi jafnan aðgang að tækninni og að skólakerfið dragist ekki aftur úr í þessum stafrænu breytingum.

Við ræddum töluvert um námsefni í nefndinni. Þá vil ég sérstaklega benda á umsögnina frá Iðnú, held ég að það hafi verið — þeir sem á eftir fara í ræðustól geta kannski leiðrétt mig ef ég fer með rangt mál. Það tengist þessari stafrænu þróun. Með tilkomu fjarnáms og fjarfunda og allra þessara stafrænu tæknibreytinga sem við verðum vitni að og tökum þátt í hafa möguleikar við gerð stafræns námsefnis aukist mjög. Við í nefndinni ræddum um gerð námsefnis og nauðsyn þess að efla útgáfu þess sem og að uppfæra námsefni sem m.a. standist kröfur um sveigjanleika og einstaklingsbundið nám. Samræma þurfi námsefni milli skólastiga sem og kröfur í þeim efnum og til að mynda er talsvert verið að endurútgefa úrelt námsefni. Það er eins og ekki sé varið nægilega miklum tíma í að meta hvort efnið sé enn í takt við tímann. Hér kemur einmitt setning í nefndarálitinu um að auka þurfi útgáfu stafræns námsefnis á öllum skólastigum. Í þeim efnum væri hægt að líta til annarra Norðurlanda sem standa mun framar en við á þessu sviði þannig að kerfin eru til og hafa verið reynd í nokkur ár. Nefndin bendir á að vinna við útgáfu og kynningu vefbóka fyrir framhaldsskólastigið sé farin af stað á vegum Iðnú, sem ég nefndi hér áðan, og sé enn á tilraunastigi. Nefndin telur að með stafrænni námsgagnaútgáfu á öllum skólastigum skólakerfisins verði skólakerfið bæði jafnara og nútímavæddara og auðveldara verði að uppfæra námsgögn í takt við tímann.

Í þessu samhengi, hæstv. forseti, áréttar nefndin mikilvægi þess að allir fái námsgögn við sitt hæfi. Nýta á þá möguleika sem stafræn tækni veitir til þess að útbúa og gefa út námsgögn við allra hæfi. Allir eiga að hafa aðgang að námsgögnum við sitt hæfi sama hvaða tjáskiptaleiðir þeir nota. Þarna opnast einmitt tækifæri fyrir fólk með ólíka námsörðugleika og einnig fyrir fatlað fólk og aðra sem gætu haft betri aðgang að námsefni við hæfi sem væri oftar uppfært í takt við þarfir samfélagsins.

Að mati nefndarinnar er mikilvægt að leggja áherslu á stafræna færni. Stafræn færni leggst þvert á allar stoðir og áherslur stefnunnar. Auðveldlega ætti að vera hægt að byggja á reynslu og þekkingu annarra Norðurlanda enda hafa þau flest sett sér sérstök markmið og hrint aðgerðum af stað til að treysta þennan þátt menntunar. Þetta á, eins og ég sagði, ekki bara við um námsefni heldur almennt um menntakerfið. Stafræn færni leggst yfir það allt og þarf að taka tillit til þess í vinnunni fram undan.

Hæstv. forseti. Það eru örfáar sekúndur eftir af mínum ræðutíma. Ég ætla ekki að lesa upp breytingartillögur nefndarinnar en þær liggja fyrir í í skjalinu.

Undir nefndarálitið rita sú sem hér stendur, Páll Magnússon, Guðmundur Andri Thorsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Birgir Ármannsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Olga Margrét Cilia, sem ritar undir með fyrirvara.