151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[19:37]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir andsvarið. Já, vissulega er stefnan ekki margorð, en orðin eru falleg. Það er alveg rétt. Við höfum líka örugglega öll heyrt þau oft áður. Menntastefnan er mikilvæg byrjun og eins og ég sagði áðan voru umsagnir sem bárust til nefndarinnar allar mjög jákvæðar og fólk almennt sammála um að tímabært væri að leggja fram menntastefnu og byrja þessa vinnu. Menntastefnan er ákveðinn rammi utan um alla þá vinnu sem síðan þarf að fara fram, sem flokkast svo niður, eins og ég reyndi að leggja áherslu á í máli mínu, í smærri verkefni. Í því samhengi lögðum við í nefndinni áherslu á að hafa yrði mikið og gott samráð við þá hagaðila sem tengjast tilteknum verkefnum. Við lögðum líka áherslu á að verkefnum þyrfti að forgangsraða og kostnaðarmeta. Það þyrfti að vera skýr ábyrgðarskipting og það þyrfti að vera góð eftirfylgni og einmitt mælanleg. Ég hélt að það kæmi fram í nefndarálitinu, en ég hef kannski séð það einhvers staðar annars staðar. En ég sagði alla vega í ræðunni að markmið þyrftu að vera mælanleg þannig að hægt væri að meta reglulega og fylgja eftir þeim markmiðum sem sett eru fram innan hvers verkefnis. Það þarf að vera mjög styrk verkefnastjórn yfir hverju og einu verkefni. Ég get kannski komið að því í seinna andsvari en að sjálfsögðu þarf fjármagn að fylgja. Ég get ekki tjáð mig um fjármálaáætlunina, ég er ekki búin að kafa ofan í hana enn þá, en við byrjum að ræða hana á morgun.