151. löggjafarþing — 72. fundur,  23. mars 2021.

menntastefna 2020--2030.

278. mál
[19:56]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er sammála því að við þurfum að fjölga karlmönnum í kennarastétt vegna þess að drengirnir okkar þurfa, og ýmsar rannsóknir benda til þess, fyrirmyndir í skólanum og þeir finna þær kannski frekar í karlkynskennurum, alla vega að einhverju leyti. Þetta er einmitt líka verkefni og ég hlakka bara til að hlusta á ræðu hv. þingmanns; hún viðrar kannski hugmyndir sínar um hvernig við gætum í fyrsta lagi komið betur til móts við drengi í skólakerfinu, sérstaklega til að styrkja þá, og einnig hvernig best væri að ná því markmiði að fjölga karlkynskennurum vegna þess að það er mikilvægt.