151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:42]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa ræðu sem var öll um fortíðina. Ég er út af fyrir sig ekkert hissa á því að svo sé vegna þess að samkvæmt þeirri fjármálaáætlun sem hér liggur fyrir, ef við lesum töflur á bls. 156 og 157, er ekki að sjá neina aukningu fyrirsjáanlega til menntamála á því tímabili sem þessi áætlun nær til. Það kemur nokkuð á óvart vegna þess að í gær vorum við að samþykkja menntastefnu til tíu ára en þessi áætlun tekur til helmings þess tíma sem menntastefnan á að gilda. Ég hef lýst því áður að mér þykir þessi menntastefna metnaðarlaus og óskýr, enda studdi ég hana ekki og ekki Miðflokkurinn. Hún var eiginlega meira eins og frasaklasi. Það styrkir kannski þá skoðun að það virðist ekki vera nokkur fjármunaaukning á þessum fimm árum, t.d. til þess standa undir þessari menntastefnu. Númer tvö þá sé ég ekki að það séu fjármunir í boði fyrir verkefni eins og íslenskukennslu fyrir útlendinga eða eflingu á móðurmálskennslu yfir höfuð, sem ekki veitir af. Ég sé ekki að hér sé svigrúm til að auka stórkostlega aðstoð við þá sem glíma við alls konar vanda, námsvanda, svo sem eins og lesblindu og fleira. Ég er því ekkert hissa á því að hæstv. ráðherra skyldi tala um það kjörtímabil sem er að verða búið núna, þetta var svona ágætis kosningainnslag. En hvað um framtíðina, hæstv. ráðherra, hvað um þau atriði sem ég bar upp?