151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:46]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Það getur verið ágætt að líta til baka, en liðurinn sem við erum að ræða núna er fjármálaáætlun fyrir næstu fimm ár. Þetta er ekki yfirferð yfir síðustu fjögur ár eða slíkt heldur næstu fimm ár. Ef það er svo að það eigi að skipa skólakerfinu hér í fremstu röð og ef það er svo að það eigi að tryggja vellíðan og tryggja gæði skólastarfs þá hljóta fjármunir að fylgja því. Samkvæmt þeirri áætlun sem hér er, og vitna ég aftur í töflur á bls. 156 og 157, eru ekki auknir fjármunir. Það er varla að t.d. framhaldsskólastigið haldi sjó, háskólarnir gera það svona í krónutölu þannig að ef við gerum ráð fyrir því að engin verðbólga verði næstu fjögur ár þá sleppa þeir kannski fyrir horn. Hér hefur verið mikil umræða um að breikka aðgengi að háskólum, sem ég fagna mjög, þ.e. að fólk með breiðari menntun eða fjölbreyttari en áður eigi þess kost að fara í háskóla. Einnig það krefst aukinna fjármuna. Þannig að á bak við öll þau fögru fyrirheit sem menntamálaráðherra fór hér yfir, og víst hefur enginn staðið á torgum og andmælt því að fyrirheitin séu fögur, eru bara ekki nóg. Ef það fylgja ekki fjármunir til að hrinda t.d. menntastefnu í framkvæmd þá verður hún orðin tóm. Þá verður hún, eins og ég sagði áðan innantómur frasaklasi án nokkurrar tengingar við veruleikann ef fjármunir fylgja ekki til að hrinda henni í framkvæmd. Það gera þeir ekki samkvæmt þessari áætlun, því miður.