151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

viðbrögð við upplýsingaóreiðu.

222. mál
[14:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta ÍNR (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir það með þingmanninum að það er mjög fín lína þegar við erum að ræða þessa hluti. Ég er sammála því að við megum ekki skerða tjáningarfrelsið og fara í harða ritskoðun nema brýna nauðsyn beri til og þá kannski helst, eins og ég nefndi hér áðan, ef t.d. um þjóðaröryggismál er að ræða. Tökum dæmi sem ég nefndi í ræðunni áðan, nýafstaðnar kosningar í Bandaríkjunum, þar sem samfélagsmiðlum þótti ástæða til að loka á þáverandi forseta Bandaríkjanna vegna þess að hann var talinn ógna lýðræðinu og ógna mögulega þjóðaröryggi með röngum upplýsingum. Þetta getur verið raunveruleg hætta og þá erum við alltaf með tjáningarfrelsi eins annars vegar og svo almannahagsmuni og þjóðaröryggi hins vegar undir. Þetta er vissulega flókið, ef þetta væri ekki svona flókið værum við náttúrlega löngu búin að setja lög og reglur og ramma þetta almennilega inn.

Mig langaði til að spyrja þingmanninn, þar sem ég er í andsvari við hann, hvort við séum ekki sammála samt um þá áherslu sem við þurfum fyrst og fremst að leggja á fræðsluna, þ.e. á upplýsingalæsi almennings — ég nefndi það í ræðu minni áðan og það kemur fram í greinargerð að upplýsingalæsi eldri hópa er oft verra en barna og ungmenna — hvort við séum ekki sammála um að fókus stjórnvalda ætti númer eitt að vera á að efla upplýsingalæsi fólks þannig að það áttaði sig sjálft á því þegar verið er að halda fram röngum upplýsingum og hefði þá alla vega kannski þekkingu til að leita aðeins og ganga úr skugga um hvaðan upplýsingarnar eru upprunnar og hvort eitthvert vit er í þeim.