151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

663. mál
[19:07]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er í sjálfu sér alveg réttmæt spurning hjá hv. þingmanni og ég kannast við þetta, það rifjast upp fyrir mér. Ég hygg nú að þegar ég svaraði með þessum hætti í umsögninni hafi ég m.a. og ekki síst verið að vísa í endurskoðun á lögunum um þingfararkaup og þingfararkostnað sem myndi snúa að því sem nú er hér í frumvarpi. Það veit ég vegna þess að þá þegar, á árunum 2017 og 2018, var þetta komið á dagskrá í forsætisnefnd. En af því að breytingar á reglum að þessu leyti snúa bara að mánuðunum eða vikunum fyrir kosningar — það lá í sjálfu sér ekki á að afgreiða það fyrr en bara mátulega snemma fyrir kosningarnar — þá hefur nú bara þannig unnist að það er fyrst nú sem við erum að skila því hér inn í þingið í formi frumvarps. En það er í raun og veru búið að standa til í tvö til þrjú ár. Niðurstaðan varð sú að drífa þetta mál hér fram. En það er út af fyrir sig allt á sínum stað að það gæti verið ástæða til að skoða fleira í lögunum um þingfararkaup og þingfararkostnað. Ég er reyndar þeirrar skoðunar t.d. að þau séu óþarflega flókin, að það þurfi ekki að vera með svona marga liði. Mér hugnaðist eiginlega best að það væri bara hreint þingfararkaup og síðan tveir mismunandi þættir í viðbót sem væru annars vegar starfskostnaður og hins vegar greiðslur sem tækju mið af stöðu þingmannsins, hvort hann er landsbyggðarþingmaður eða heimanakstursþingmaður eða annað slíkt, og best að reyna að einfalda það þannig.

Síðan er sennilega réttast að upplýsa í leiðinni að við þessum málum hefur lítið verið hreyft á þessu kjörtímabili og þar á meðal hafa þessar greiðslur verið frystar, sem er auðvitað umdeilanlegt að sé til eftirbreytni því að að sjálfsögðu væri hið eðlilega að þær færðust upp til verðlags á hverju ári. (Forseti hringir.) En það hefur engu að síður orðið niðurstaðan að hafa þær frystar út þetta kjörtímabil af ástæðum sem ég held að við öll þekkjum, (Forseti hringir.) menn hafa ekki talið þetta heppilegasta tímann til að hækka þær.