151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

663. mál
[19:26]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki í hyggju að breyta út af því sem ég sagði hérna áðan. Ég segi aftur að ég tel mig hafa nokkuð góða vissu fyrir því að þessi aðstöðumunur verði ekki réttur þrátt fyrir þetta sem hér er komið fram. Mér finnst þetta ekki nógu skýrt og mér finnst þetta ekki ganga nógu langt og þess vegna var ég ekki og er ekki tilbúinn í að samþykkja þetta frumvarp eins og það liggur fyrir. Það er mjög skýrt. Forseti þingsins má að sjálfsögðu gera ágreining við mig og það var ekki mín hugsun að gera lítið úr honum en þetta frumvarp sem hér er lagt fram nær ekki þeim markmiðum að mínu mati sem við erum að leita eftir. Ég stóð ekki að afgreiðslu þessa máls í forsætisnefnd þingsins vegna þess að ég hafði ekki og hef ekki sannfæringu fyrir því að það muni laga eða rétta þann aðstöðumun sem er á milli þingmanns og ráðherra í undanfara kosninga. Ég ætla að standa við það þangað til að annað sannast, sem ég hef ekki trú á að verði í undanfara þeirra kosninga sem í hönd fara.