151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

663. mál
[19:30]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Ég kann vel að meta það að forseti þingsins taki svo afdráttarlaust til orða. Ég er nú ekki vanur að veðja, en ég sting stundum upp á því að veðja poka af súkkulaðihúðuðum rúsínum og ég er reiðubúinn að gera það enn einu sinni vegna þessa máls. Verði það efndir málsins að ég hafi rangt fyrir mér þá mun ég færa forseta þingsins poka af súkkulaðirúsínum en ég á ekki von á því að til þess þurfi að koma vegna þess einfaldlega að mér finnst ekki nógu skýrt búið hér um að það verði. Nú er sá sem hér stendur fyrrverandi ráðuneytisstarfsmaður til allnokkurra ára og kann sirka hvernig ráðherrar fara um, bæði í undanfara kosninga og utan þess tíma, og að þessu leyti og af þeirri reynslu sem ég hef náð mér í á þeim vettvangi þá er ég enn harður á því sem ég sagði áðan. Við verðum þá að sitja ósáttir, ég og forseti þingsins, hvað þetta varðar. En komi í ljós að þetta stenst allt saman eins og ráð er fyrir gert þá mun ég fara að því sem ég hét hér áðan, en aftur, traust okkar á því er ekki nóg til þess að við getum samþykkt þetta frumvarp.

(Forseti (BLG): Forseta finnst góðar súkkulaðirúsínur og tekur veðmáli hv. þingmanns.)