151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Þau tíðindi hafa nú borist frá Danmörku að yfirmenn sóttvarna þar í landi hafa ákveðið að hætta að nota bóluefni AstraZeneca vegna aukaverkana sem hafa komið í ljós eftir að notkun þess jókst. Danir ætla að bjóða þeim 150.000 einstaklingum sem hafa fengið fyrri bólusetninguna með AstraZeneca-efninu aðra lausn. Þetta samsvarar því að 10.000 manns á Íslandi fengju sömu meðhöndlun. Í framhaldi af því að Danir hafa hætt notkun á efninu hljótum við að þurfa að fá yfirlýsingu frá hæstv. heilbrigðisráðherra um hvað ríkisstjórnin ætli að gera í framhaldinu, hvort hún ætli að fara að ráði Dana eða hvort áfram verði haldið að nota þetta bóluefni sem er vægast sagt umdeilt. Ég er alveg sannfærður um að eftir þessar fregnir frá Danmörku í morgun muni þeim fjölga sem hafna því að fá efnið í bólusetningu. Æskilegast væri auðvitað að ná tangarhaldi á Þórólfi sjálfum, þ.e. að þingmenn fengju beint viðtal við hann. Það væri hægt að gera með því að hann yrði kallaður fyrir hv. velferðarnefnd þannig að hægt væri að fá sjónarmið sóttvarnalæknis fram í þessu máli.

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að tilkynnt hefur verið um aukið framboð á Pfizer-bóluefni fyrir Evrópu svo að skiptir milljónum skammta og hugsanlega mun það leysa okkur úr þessari snöru. En við verðum að fá það fram frá stjórnvöldum hvort þau hyggist halda áfram að nota AstraZeneca-bóluefnið til bólusetningar hér á Íslandi og þá fyrir hvaða hópa.