151. löggjafarþing — 79. fundur,  15. apr. 2021.

um fundarstjórn.

[14:42]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég er almennt þeirrar skoðunar að trúnað beri að virða nema mjög góð ástæða sé fyrir því að brjóta hann. Þá á ég við þegar þarf að uppljóstra um eitthvað, t.d. lögbrot eða því um líkt. Hitt er að hér á Alþingi finnst mér almennt allt of mikil áhersla lögð á að hafa trúnað um hluti sem ekki þarf að vera trúnaður um. Það er hinn hlutinn sem mætti líka endurskoða, samanber það sem hæstv. ráðherra nefndi hér sem möguleika: Þarf þennan trúnað? Er hann góður? Er þetta ekki stærra mál en trúnaðinum er ætlað að vernda? Það er alveg þess virði að velta því fyrir sér. Við eigum að hafa sem minnst af trúnaðarmálum hér á Alþingi sökum eðlis stofnunarinnar og eðlis hlutverks okkar, sem er m.a. að tala um hlutina frammi fyrir almenningi. Ég er almennt ekki hlynntur því að brjóta trúnað og virði hann sjálfur, en mér finnst hann oft vera meira til trafala en hitt.