151. löggjafarþing — 84. fundur,  22. apr. 2021.

sumarkveðjur.

[04:31]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill segja, þó að mönnum liggi sjálfsagt á heim til sín, nú þegar við ljúkum væntanlega þessum fundi einhvers staðar milli óttu og rismála, eins og sagt hefði verið hér fyrrum, að það er skoðun hans að Alþingi hafi almennt staðið sig mjög vel á þeim erfiðu tímum sem við höfum gengið í gegnum í á annað ár. Ég hyggst láta taka saman á næstunni hversu mörg þau mál eru orðin sem tengjast heimsfaraldrinum og viðbrögðum við honum en ég yrði ekki hissa á því þó að þau væru núna í nágrenni við hálft hundrað.

Þá vil ég slá á allt aðra strengi og víkja að því að í dag fór í loftið ungmennavefur Alþingis. Vefurinn er ætlaður nemendum í efri bekkjum grunnskóla og framhaldsskólum sem og öllum öðrum sem hafa áhuga á því að fræðast um starfsemi Alþingis. Talsvert átak hefur verið gert í því að undanförnu að koma upplýsingum betur á framfæri og jafnvel til afmarkaðri hópa um það starf sem hér fer fram. Á ungmennavef Alþingis er m.a. að finna hugtakasafn, lýsingu á vegferð lagafrumvarpa í gegnum þingið — kannski ekki nákvæmlega eins og vegferð þess frumvarps sem við vorum að afgreiða hér áðan — söguás Alþingis, þrautir og verkefni sem hægt er að spreyta sig á og ýmislegt fleira er þar að finna skemmtilegt og fræðandi.

Þá vill forseti að lokum nota þetta upplagða tækifæri til að óska alþingismönnum, starfsfólki Alþingis og landsmönnum öllum gleðilegs sumars með þökkum fyrir samstarfið á nýliðnum vetri.