151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[16:23]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er það ekki ásetningur minn að hoppa ofan í skotgröfina sem er andspænis skotgröf hv. þingmanns. Ég vil hins vegar benda honum á það í mikilli vinsemd að ef hann á eitthvað órætt við formann Miðflokksins þá er formaður Miðflokksins að staðaldri hér í þinginu og hann getur tekið þær umræður upp hvenær sem honum dettur í hug. Það er ekki þannig, herra forseti, að sá sem hér stendur telji sig þess umkominn að flytja mál sitt betur eða með heiðarlegri hætti eða skipulegri en aðrir eða að hann sé til fyrirmyndar í því hvernig hann hagar orðum sínum hér í ræðustóli. Það er ekki svo. Allt tal um predikanir læt ég nú bara fram hjá mér fara. En það er hins vegar annað í því, eins og ég sagði áðan, að menn bregðast reiðir við þegar að þeim er sótt og ég hef greinilega snert einhverja taug í hv. þingmanni og það er út af fyrir sig ágætt. En það var eitt sem kom fram hjá hv. þingmanni hér áðan sem er beinlínis rangt, vegna þess væntanlega að hann hefur ekki hlustað á ræðuna sem ég flutti áðan, tíu mínútna ræðu, allt of stutta, þ.e. að það vantaði ekkert upp á það í fyrri ræðu að rætt væri um málefni sem skipta okkur og samskipti við Evrópusambandið máli, ekki neitt. En ef hv. þingmaður hefur ekki tekið eftir því sem ég sagði í fyrri ræðu þá er það náttúrlega hans vandamál en ekki mitt. Það er hins vegar verra ef hann leggur út af því eins og hann hafi hlustað og hann gerði það ekki. Það er dálítið verra.

Ég ætla að segja það aftur, herra forseti, meðan ég hef tíma, að ég fagna þessari umræðu og mun taka þátt í henni af miklum ákafa.