151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

háskólar og opinberir háskólar.

536. mál
[18:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég flyt nú nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um háskóla, nr. 63/2006, og lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008, varðandi aðgangsskilyrði. Ég ætla aðeins að grípa niður í greinargerð frumvarpsins, þar er m.a. farið yfir meginefni þess, tilefni og nauðsyn lagasetningar og allan aðdraganda málsins. Frumvarpið felur fyrst og fremst í sér breytingu á aðgangsskilyrðum í háskóla, eins og nafnið ber með sér, þannig að í staðinn fyrir að nemendur skuli fyrst og fremst hafa lokið stúdentsprófi kemur nýtt skilyrði um að nemendur skuli hafa staðist lokapróf frá framhaldsskóla á 3. hæfniþrepi. Með þessari breytingu ættu aðgangsskilyrði að háskóla að vera í samræmi við hæfni, færni og þekkingu nemenda en ekki vera hindrun fyrir þá sem hafa staðist annað lokapróf á 3. hæfniþrepi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla til að hefja nám á háskólastigi. Frumvarpið felur þar af leiðandi í sér aukið jafnræði til náms óháð mismunandi námsleiðum nemenda og þeim lokaprófum frá framhaldsskólum sem nemendur hafa.

Frumvarpinu er auk þess ætlað að hvetja háskóla til að setja sér skýr og gegnsæ aðgangsviðmið um hvaða hæfni, þekkingu og færni þarf fyrir einstakar námsbrautir.

Tilefni lagasetningar er að lengi hefur verið litið til stúdentsprófs sem aðalinntökuskilyrðis í háskóla sem hefur leitt til þess að nemendur sem hafa annars konar lokapróf frá framhaldsskólum á sama hæfniþrepi hafa ekki átt jafnan rétt til inngöngu í háskóla. Auk þess er orðalag gildandi laga ekki nægjanleg hvatning fyrir háskóla til að móta gegnsæ og skýr aðgangsviðmið fyrir nemendur sem hafa lokið iðn- og starfsnámi. Nauðsynlegt er að lagt sé mat á raunverulega hæfni en hæfniviðmiðin gera nemendum, skólum og vinnuveitendum og öðrum hagsmunaaðilum kleift að sjá hvaða hæfni og getu nemendur þurfa að búa yfir við námslok, auk þess nýtist gagnsæi viðmiðanna almennt fyrrgreindum aðilum ásamt því að vera mikilvægur þáttur í ytra eftirliti með gæðum skólastarfs.

Eins og ég sagði áðan, hæstv. forseti, er í greinargerð málsins farið mjög vel yfir þá stefnumótun og þá vinnu sem unnin hefur verið í ráðuneytinu síðan 2007, en fram fór mjög umfangsmikil stefnumótun á árunum 2007–2008. Þá komu fram fimm frumvörp sem vörðuðu öll skólastigin. Síðan var lögð fram hvítbók um umbætur í menntun sem mennta- og menningarmálaráðuneytið gaf út árið 2014 um stöðu íslenska menntakerfisins. Hér er nefnt þróunarverkefni um fagháskólanám sem hrint var af stað árið 2016. En þrátt fyrir þær breytingar hafa ekki allir nemendur sem lokið hafa framhaldsskólanámi átt greiðan aðgang að háskólanámi og á þetta sérstaklega við nemendur sem lokið hafa starfsnámi. Í tíð núverandi mennta- og menningarmálaráðherra hefur verið leitast við að jafna stöðu nemenda sem hafa staðist ólík lokapróf úr framhaldsskólum. Sú áhersla endurspeglast í tillögu til þingsályktunar um menntastefnu fyrir árin 2020–2030, sem Alþingi samþykkti nú fyrir páska. Í menntastefnunni kemur jafnframt fram að starfs-, iðn- og tækninám sé forsenda fyrir sjálfbærni atvinnugreina á Íslandi og að mikil eftirspurn sé eftir starfs- og tæknimenntuðu fólki hér á landi. Í skýrslu verkefnisstjórnar um framtíðarfyrirkomulag fagháskólanáms frá 2019 kom fram að nauðsynlegt væri að fella brott hindranir á leið einstaklinga til frekari menntunar. Með þessu frumvarpi er því markmiði fylgt eftir. Í stuttu máli, hæstv. forseti, er markmið þessa máls að gera háskólanámið aðgengilegra og þá um leið að svara kalli vinnumarkaðarins um fjölbreyttari menntun, sér í lagi starfs- og tæknimenntun.

Þá að umfjöllun nefndarinnar um málið. Það kemur fram í nefndarálitinu að fjölmargir gestir komu fyrir nefndina og sendu inn umsagnir. Ég ætla ekki að lesa þá alla upp en umsagnir þeirra voru mjög gagnlegar fyrir nefndarmenn. Umsagnaraðilar voru flestir jákvæðir í garð frumvarpsins og töldu breytingarnar löngu tímabærar. Aftur á móti komu fram sjónarmið um að tryggja þyrfti nægilegan undirbúning fyrir nám á háskólastigi. Í lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, er einungis kveðið á um að nám til stúdentsprófs skuli taka mið af þörfum nemenda sem hyggja á háskólanám en ekki er gerð krafa um að aðrar námsbrautir á 3. hæfniþrepi skuli búa nemendur undir háskólanám. Samt sem áður eigi þau próf að veita almennan aðgang að háskólum. Æskilegra væri að gera greinarmun á lokaprófum sem veita almennan aðgang að háskólanámi og prófa svo að veita takmarkaðan aðgang. Þá getur frumvarpið leitt til þess að hafa áhrif á samninga Íslands við önnur lönd um gagnkvæma viðurkenningu náms.

Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að jafna möguleika nemenda sem ljúka prófi af 3. hæfniþrepi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla til háskólanáms. Í því samhengi áréttar meiri hlutinn að frumvarpið tryggir þó ekki aðgengi að háskólanámi. Samhliða þessum breytingum er mikilvægt að háskólar móti skýr og gegnsæ viðmið fyrir nám í einstökum deildum sem taki jafnframt mið af hæfni, færni og þekkingu nemenda óháð námsleiðum og lokaprófum á framhaldsskólastigi. Slík viðmið verði til þess fallin að vera leiðbeinandi fyrir framhaldsskóla við skipulag og framsetningu námsbrauta, upplýsandi fyrir nemendur um inntökuskilyrði, auðveldi flokkun umsókna í háskólanám og nýtist háskólum, framhaldsskólum og nemendum. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á nauðsyn þess að gott samráð verði á milli háskólastigsins og framhaldsskólastigsins í þessum efnum.

Meiri hlutinn leggur til breytingar sem ekki er ætlað að hafa efnisleg áhrif en eiga að stuðla að auknu samræmi milli ólíkra lagabálka. Í fyrsta lagi er í frumvarpinu vísað til „þriðja hæfniþreps“. Í lögum um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 95/2019, er notuð raðtala eða vísað til „3. hæfniþreps“. Í því skyni að auka samræmi milli ólíkra lagabálka sem fjalla um sama málefni leggur meiri hlutinn til að í frumvarpinu verði notuð raðtala. Þetta er, eins og ég segi, einungis gert til að gæta samræmis og eðlilegt að það sé gert.

Í öðru lagi er í efnisgreiningu í fyrirsögn frumvarpsins notað hugtakið „aðgangsskilyrði“. Meiri hlutinn bendir á að í öðrum lögum sem fjalla um skólamálefni er hugtakið „inntökuskilyrði“ notað. Með sömu rökum og um fyrri breytingartillögu meiri hlutans er lagt til að í stað hugtaksins „aðgangsskilyrði“ í efnisgreiningu komi hugtakið „inntökuskilyrði“.

Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

1. Í stað orðanna „þriðja hæfniþrepi“ í 1. gr. og tvívegis í 2. gr. komi: 3. hæfniþrepi.

2. Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um háskóla og lögum um opinbera háskóla (inntökuskilyrði).

Undir þetta rita sú sem hér stendur, hv. formaður allsherjar- og menntamálanefndar, Páll Magnússon, Guðmundur Andri Thorsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Birgir Ármannsson, Olga Margrét Cilia, Steinunn Þóra Árnadóttir og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.