151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

þingsköp Alþingis.

80. mál
[14:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta litla frumvarp, sem er reyndar frá forsætisnefnd Alþingis og flutt af henni allri, er tengt heildarendurskoðun ýmissa lagaákvæða á sviði jafnréttismála sem Stjórnarráðið hafði veg og vanda af og þegar er búið að afgreiða hér á Alþingi. Ætlunin er með þessu að samræma orðalag í þingsköpunum hvað varðar hlut Alþingis í því að kjósa bæði innan þings og utan. Hér er skýrt tekið fram hvað það er sem takmarkar möguleika Alþingis til að geta framfylgt jafnréttislögum að öllu leyti, þ.e. með fyrirvara um niðurstöðu alþingiskosninga hvað kynjahlutföll varðar og stöðuna innan einstakra þingflokka. Ég sé ekki annað en að Alþingi sé það vandræðalaust að reyna sitt besta í þeim efnum.

Í 3. gr. er hins vegar fortakslaust ákvæði um það að þegar Alþingi kýs í stjórnir, nefndir og ráð úti í þjóðfélaginu þá skuli það vera í lagi og í samræmi við jafnréttislög, enda engin afsökun fyrir neinu öðru. Ekki eru kynjahlutföll í þjóðfélaginu svo skökk að ekki sé hægt að hafa a.m.k. 40% af hvoru kyni þegar kosið er úr stóra menginu.(Forseti hringir.)

Síðan verð ég að segja að ég mun greiða atkvæði gegn breytingartillögu minni hlutans sem að mestu leyti þurrkar þennan anda frumvarpsins út (Forseti hringir.) og þau skilaboð er ég ekki tilbúinn til að senda frá Alþingi Íslendinga í jafnréttismálum.