151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er tvíþætt. Annars vegar hygg ég að slíkt dvalarleyfi myndi draga úr því t.d. að fólk frá Georgíu eða fólk sem er ekki í neinni neyð í Albaníu eða slíkum löndum komi hingað og verði þá bara þannig leyfi. Ég heyrði hv. þingmann ekki segja það beint en mér fannst votta fyrir því í bakgrunninum, og vona að það sé ekki ósanngjarnt, að þetta fólk komi bæði hingað til að leggjast á kerfið og til að taka vinnuna. Það er mótsögn, virðulegi forseti. Fólk sem kemur hingað inn í gegnum hælisleitendakerfið í leit að vinnu getur unnið og vill vinna og vinnur og þarf ekki á þessari aðstoð að halda. Svo er hitt sem ég myndi líka segja að við ættum að gera. Við ættum að vera jákvæðari gagnvart því að taka á móti fólki, sér í lagi fólki sem hefur einhvers staðar komið við í Evrópu áður og vill vera hérna. Það eru dæmi um það að fólk hefur verið sent aftur til einhvers lands sem það millilenti í, af því að tekið var fingrafar af því eða eitthvað því um líkt. En það var á leiðinni hingað eða alla vega eitthvað annað en það er sent til baka og slíkar synjanir kosta peninga. Þetta er kjarninn í minni orðræðu í þessu, þar sem ég er ósammála hv. þingmanni og Miðflokknum almennt, þ.e. að það er báknið sem kostar peninga, það eru synjanirnar. Þegar íslenska kerfið ákveður að senda einhvern til Frakklands, segjum það, út af Dyflinnar-reglugerðinni þá er það kostnaðarsamt vegna þess að sá einstaklingur mun alltaf leita réttar síns, hann mun alltaf þurfa tíma, mun alltaf kosta fjármuni sem við verðum að reiða af hendi af mannúðarástæðum, í lögfræðinga, í kærunefnd útlendingamála og allt þetta bákn sem búið er að byggja í kringum þetta. Við getum minnkað álagið á þetta kerfi með því einfaldlega að senda færri á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, að vera ekki alltaf að reyna að ýta á móti heldur bara að hleypa inn í meira mæli. Það er að mínu mati til þess fallið að draga úr álaginu sem er til komið af þeim umsóknum sem fara inn í hælisleitendakerfið, jafnvel þó að við bjóðum upp á annað dvalarleyfi.