151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[22:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Virðingu, það vekur áhuga minn. Ég get nefnilega tekið undir það að ég ætlast til þess að fólk lifi og starfi í samræmi við frjálslynd lýðræðisgildi og þá er mér alveg sama hvort það eru útlendingar eða Íslendingar eða hvað. Mér er alveg sama hvort það er af trúarlegum ástæðum eða bara hreinni íhaldssemi eða þvermóðsku sem fólk vill ekki aðlaga sig að frjálslyndum lýðræðisgildum. Fyrir mér snýst þetta kannski ekki svo mikið um það hvort fólk borði þennan eða hinn matinn, klæði sig svona eða hinsegin eða hafi einhverjar venjur sem koma kannski frjálslyndum lýðræðisgildum lítið eða ekkert við. Það er aukaatriði í mínum huga vegna þess að ég vil sjá samfélag sem er fjölbreytt, ég tel fjölbreytt samfélag vera ríkt. Það þarf að vera sameiginlegur grunnur og þessi sameiginlegi grunnur eru frjálslynd lýðræðisgildi. En það hvort fólk aðlagist einhverjum menningarhefðum eins og t.d. að hvaða bröndurum það hlær eða hvaða sögur það segir — fyrir mér, virðulegur forseti, er þetta miklu meira spurning um það hvernig okkur tekst að búa nógu vel um þessi frjálslyndu lýðræðisgildi til að alls konar menning geti notið sín á þeim grunni. Eini hópurinn sem ég veit til þess að einhver ríkjandi ótti sé við í þessu samhengi eru múslimar. Það er reyndar annar hópur, hann er samanstendur bara ekki af útlendingum eða hælisleitendum. Það eru kristnir íhaldsmenn, virðulegi forseti, sem t.d. í Ungverjalandi, Póllandi og að einhverju leyti hér streitast við þegar reynt er að fara lengra í átt til frjálslyndra lýðræðisgilda, t.d. með því að veita konum meiri sjálfsákvörðunarrétt yfir eigin líkama. Klassískt frjálslynt lýðræðisgildi eða svo hefði maður haldið.

Virðulegi forseti. Ég ætlast svo sem ekki til svars frá hv. þingmanni, enda hef ég ekki aðra spurningu. En þetta vakti forvitni mína. Mér finnst mikilvægt að ef við höfum áhyggjur (Forseti hringir.) af einhverjum menningarlegum eða stjórnmálalegum atriðum þegar kemur að öðru fólki sem kemur inn í landið okkar þá eigum við bara að tala um það upphátt. Ekki er ég hræddur við það.