151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[22:46]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Mér þykir ánægjulegt að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sé enn þá með okkur hér í þingsal. Ég hrósaði honum mjög fyrr í kvöld fyrir fyrstu ræðuna sem hann flutti hér í dag. Að sama skapi ætla ég að finna verulega að ræðunni sem hann hélt hér áðan, vegna þess að í þeirri ræðu var hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson að ala á ótta og fordómum. Það er nefnilega eins og séra Hallgrímur sagði einhvern tímann, með leyfi forseta: „Það sem helst hann nú varast vann, varð þó að koma yfir hann.“ Þetta stendur í Passíusálmi, ef ég man rétt.

Vandinn er sá að það er svo auðvelt að spegla sig í öðrum og af einhverjum ástæðum sem mér eru algerlega huldar greinir hv. þingmaður, eins og hestahvíslari eða eitthvað svoleiðis, í þeim orðum sem við höfum látið fara frá okkur í dag, Miðflokksfólk, einhvern undirtón af hlutum sem eru ekki þar; vott af útlendingaandúð og vott af trúarbragðafordómum. En í sama andartakinu talar hv. þingmaður niður til stærsta þjóðarbrots sem flutt hefur til Íslands, þ.e. til pólska samfélagsins, og gerir lítið úr kaþólsku kirkjunni sem er haldreipi þess. Hún var haldreipi Pólverja undir oki kommúnismans og varð í raun og veru þess valdandi að kommúnistar gátu ekki brotið þá á bak aftur eins og marga aðra, af því að Pólverjar eru sjálfstætt og stolt fólk með mikla sögu.

Þetta fannst mér svo vont í ræðu hv. þingmanns. Það er eitt að vera innblásinn af nánast trúarlegum hugmyndum, eins og hann var í báðum ræðunum, en þegar reynt er að finna einhvern undirtón sem ekki er til og gera málflutning tortryggilegan út af einhverju sem ekki er í honum þá er illa farið. Umræðan hér í dag hefur undantekningarlítið verið málefnaleg, opin og hreinskilin, fyrir utan eina geðvonda þingkonu Framsóknarflokksins, hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur, sem byrjaði strax í inngangi sínum að nefndaráliti að tala um kynþáttahyggju og fleira sem ekki er til í því sem hefur verið rætt hér í dag og í gær. Mér þykir þetta mjög miður vegna þess að það var mjög uppörvandi að hlusta á hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson, en að sama skapi er það nánast dapurlegt núna vegna þess að það er ekki góð latína, herra forseti, að reyna að toga upp tortryggni, eða réttara sagt að sá tortryggni og uppskera reiði, ótta og örvæntingu. En það var það sem mér fannst hv. þingmaður vera að sá til í ræðu sinni og það er ekki gott að sitja undir því.

Umræðan hefur verið opin og heiðarleg. Við förum ekkert í grafgötur með að okkur líst ekki á þetta frumvarp. Við erum búin að lýsa því yfir og búin að lýsa af hverju; við viljum koma í veg fyrir að hér skapist ástand sem við ráðum ekki við. Við viljum koma í veg fyrir að hér skapist slíkt ástand að við getum ekki staðið við skuldbindingar okkar gagnvart þeim sem við tökum á móti. Við viljum ekki skapa ástand þar sem við getum t.d. ekki tryggt að börn þeirra sem hingað leita geti fengið kennslu og aðlagast íslensku samfélagi, eins og ég hef bent á í tveimur ræðum að hafi því miður gerst síðustu 20 ár. Við viljum ekki að endurtaka það. Við viljum vanda okkur, herra forseti. En það er það sem hv. þingmaður virðist ekki skilja.