151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

um fundarstjórn.

[13:57]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Eins og forseti tók fram er hann alltaf tilbúinn til að grennslast fyrir um stöðu mála í þágu þess að upplýsa um hana. En rétt er að taka fram að eftir að Alþingi hefur samþykkt skýrslubeiðni til ráðherra er sú skýrslubeiðni og efnd á þeirri beiðni á stjórnskipulega og lagalega ábyrgð viðkomandi ráðherra. Forseti Alþingis hefur ekkert íhlutunarvald í þeim efnum. Það er síðan ráðherrann sem ber ábyrgð á skýrslunni, bæði pólitíska og lagalega. Það er á grundvelli ákvörðunar Alþingis um að viðhafa það verklag.

Forseti vill að nokkru leyti taka undir með hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að Alþingi þarf í raun að gera það upp við sig ef það vill sjálft stýra því hverjir koma að gerð skýrslu, að setja það mál í t.d. þann farveg að biðja Ríkisendurskoðun sem óháðan aðila um slíkt, vegna þess að vandinn sem upp kemur er þessi, sem forseti vonar að honum hafi tekist að útskýra án þess að hleypa hér öllu í loft upp, að eftir að Alþingi hefur beðið ráðherrann um skýrsluna verður hin lagalega og pólitíska ábyrgð ekki frá ráðherranum tekin. Það er þannig og á ekki að þurfa að hafa um það mikið fleiri orð. En forseti endurtekur að hann er tilbúinn til að kanna stöðu þessa máls og skal upplýsa um það héðan úr stólnum þegar hann hefur fengið eitthvað til að upplýsa um og vonar að það geti orðið til þess að ljúka þessari umræðu.

Halda menn sig við það að vilja halda áfram að ræða fundarstjórn forseta um þetta mál? Já, það gera menn. Þeir sem ekki hafa fullnýtt rétt sinn geta gert það.