151. löggjafarþing — 90. fundur,  5. maí 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hefur verið um þetta mál. Það er áhugavert að sjá hve fáir stjórnarliðar eða fylgjendur málsins taka til máls. Ég fagna því þó að nú er ljóst að málið verður tekið til nefndar milli umræðna, eftir því hefur einn nefndarmaður óskað. Vonandi gefst tækifæri til þess að fara betur ofan í þá liði sem við höfum fjallað hér um, Miðflokksmenn, og haft áhyggjur af. Við höfum dregið fram þann mikla kostnað sem er í rauninni falinn í þessu máli öllu saman. Falinn set ég nú innan gæsalappa og sviga en það er hins vegar alveg ljóst að þegar þjónusta er aukin við hundruð manna eða þúsundir, fer að sjálfsögðu eftir því hvernig fram vindur í framtíðinni, hækkar kostnaður heilmikið. Verið er að stækka þann hóp sem fær ákveðna þjónustu sem kostar eðlilega fullt af peningum, skattpeningum íslenskra ríkisborgara, þeirra sem greiða skatt. Það er áhyggjuefni, herra forseti. Að okkar mati mun þetta virka sem hvati til þeirra sem vinna við það — og aftur innan gæsalappa — glæpamennina sem eru að smygla og koma fólki til Íslands eða annarra landa.

Ég hef líka áhyggjur af því og það slær mig nokkuð að svo virðist sem enginn vilji sé hjá íslenskum stjórnvöldum og hjá mörgum þingmanninum til að horfast í augu við þá reynslu og þann veruleika sem nágrannaþjóðir okkar og aðrir hafa glímt við undanfarin ár. Þegar þar var varað við þessari þróun voru haldnar svipaðar ræður af andstæðingum þeirra og við höfum heyrt óminn af hér. Ein og ein ræða hefur verið haldin í þá veru. Því miður sýnist mér að fjölmiðlar spili helst með í því. Varað var við því að ástandið yrði eins og það er í dag í löndum eins og Danmörku og Svíþjóð, og í fleiri löndum, ef sú stefna sem þar hafði verið viðhöfð myndi halda óbreytt áfram. Nú eru þessi góðu lönd, þessir nágrannar okkar og frændur, komin á þann stað að þau ráða ekki neitt við neitt og grípa sömuleiðis til örþrifaráða, leyfi ég mér að segja, líkt og Danir hafa verið að boða undanfarið. Það er svolítið sérstakt, herra forseti, að íslensk stjórnvöld, íslenskir stjórnmálamenn, skuli ekki vilja læra af þessu, skuli ekki vilja viðurkenna hvernig málin hafa þróast í þessum löndum, að þau stingi hausnum í sandinn og láti sem þau sjái ekki þessa þróun og vilji í rauninni bjóða upp á hana hér líka.

Við eigum að sjálfsögðu að nýta okkur þessa reynslu til að koma hér á skýrum og ákveðnari reglum sem koma í veg fyrir að við förum sömu leið með okkar þjóðfélag og samfélag. Það þýðir ekki að hingað geti ekki komið einstaklingar eða fólk af erlendu bergi brotið, alls ekki. Við eigum að bjóða velkomið hingað fólk sem er raunverulega í mikilli neyð og þarf á hjálp að halda. Við eigum að sjálfsögðu líka að taka vel á móti þeim sem hingað vilja koma og göfga og bæta okkar samfélag, byggja hér upp með okkur. Það er nú þannig og við verðum að viðurkenna það að við þurfum líka á því að halda, Íslendingar, að hingað komi fólk sem vill setjast hér að og vinna og gerast íslenskir borgarar, ekki erum við það mörg. En þegar kemur að hælisleitendamálunum, þegar kemur að einstaklingum á flótta, hvernig við tökum á móti þeim, eigum við að sjálfsögðu að gera vel við þá sem raunverulega og nauðsynlega þurfa á hjálp að halda. Við eigum að einbeita okkur að því að hjálpa þeim sem næst sínum heimkynnum. Það er það sem mælt er með. Eins og ég lýsti hér eftir heimsókn og reynslu mína frá því að heimsækja flóttamannabúðir vildu allir sem ég ræddi við helst vera sem næst sínum heimilum og komast til sín heima aftur. Það er kannski það sem við sáum núna nýverið að Danir eru að boða, eða stjórnmálamenn þar alla vega, að senda fólk aftur til síns heima.

Í það minnsta, herra forseti, vil ég segja það svona í blálokin að ég fagna því að málið verði tekið aftur fyrir í nefndinni. Ég fagna því og vona svo sannarlega að þá verði varpað ljósi á þessar spurningar sem við Miðflokksmenn höfum lagt fram í þessari umræðu. Ég held að það sé líka mikilvægt að við höldum umræðunni áfram. Hún á að halda áfram, bæði hér á þingi og úti í samfélaginu. Við eigum að þora að ræða þessi mál. Þau geta verið viðkvæm fyrir margra hluta sakir en við eigum hins vegar ekki að vera hrædd við að ræða og horfa á reynsluna og staðreyndirnar sem tala sínu máli í öðrum ríkjum. Af því eigum við að taka mið í okkar nálgun á næstu árum.