151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

framkvæmd EES-samningsins.

764. mál
[15:20]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Herra forseti. Við ræðum skýrslu utanríkisráðherra um EES-samstarfið og hér hafa nú þegar nokkrir hv. þingmenn tekið til máls og farið yfir efni skýrslunnar með ólíkum áherslum. Mér heyrist samt á flestum að við séum almennt sammála um gildi samningsins og jákvæð áhrif hans fyrir íslenskt samfélag. Ég get alla vega óhikað tekið undir þá fullyrðingu að samningurinn um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu sé einn mikilvægasti viðskiptasamningur sem Íslendingar hafa gert, ef ekki sá mikilvægasti.

Í inngangi skýrslunnar fer hæstv. ráðherra yfir nokkur atriði og ámálgar þá m.a. ákveðna annmarka samningsins sem bæta þurfi úr. Ráðherra segir að nokkuð vanti upp á að íslenskar sjávarafurðir njóti fulls tollfrelsis við innflutning til ESB og sömuleiðis að verulegt ójafnvægi sé í samningnum varðandi viðskipti með landbúnaðarvörur. Úr þessu þarf að bæta og því er ég auðvitað sammála því það er okkar hlutverk að gæta hagsmuna íslenskra borgara og íslenskra fyrirtækja. Hitt er annað að tolleftirlitið hjá okkur þarf einnig að bæta og er þá skemmst að minnast máls sem kom upp fyrir nokkru síðan varðandi innflutning á ostum og misræmi í skráningu þar. Við þurfum bara almennt að vanda okkur og ég held að við séum á réttri leið.

Töluvert pláss í skýrslu ráðherra fer í yfirferð á áhrifum Covid-faraldursins á starfsemi ESB og rekstur EES-samningsins. Þar kennir ýmissa grasa sem ráðherra og þingmenn hafa nú þegar farið ágætlega yfir. Ástandið hefur auðvitað verið fordæmalaust, flókið en á sama tíma krafist hraðrar ákvarðanatöku af hálfu stjórnvalda. Sumar ákvarðanir hafa verið góðar eðli málsins samkvæmt og aðrar síðri.

Við sjáum vonandi fyrir endann á þessum erfiða tíma en það sem stendur upp úr að mínu mati í umfjöllun um efnið í skýrslunni er þátttaka íslenskra stjórnvalda á óformlegum ráðherrafundum, sem er ekki venjan, þ.e. ráðherrafundum meðal ESB-aðildarríkja. Eins og venjan er hefur dómsmálaráðherra á grundvelli Schengen-samstarfsins tekið þátt í formlegum og óformlegum fundum eins og áður, en að mínu mati er samstarf alltaf af hinu góða og auðvitað eigum við að standa saman þegar erfiðleikar steðja að.

Annað gott sem komið hefur út úr þessu öllu saman og sem nefnt er í skýrslunni er notkun fjarfunda í Evrópusamstarfinu. Sú þróun er góð vegna þess að hún býður upp á nánara samstarf þar sem fjarfundatæknin gerir okkur kleift að boða til funda með skömmum fyrirvara, sáralítill eða enginn kostnaður hlýst af, mikill tímasparnaður og gerir þar af leiðandi kannski ýmsa fundi aðgengilegri fyrir fólk, og síðast en ekki síst færri kolefnisspor því við stefnum jú öll að grænni framtíð. Vísa ég þar m.a. í græna sáttmálann sem fjallað er um á bls. 19 í skýrslunni.

Í skýrslu ráðherra er stuttur kafli um samhæfð efnahagsleg viðbrögð ESB-ríkja. Þar segir að þann 13. mars 2020 hafi framkvæmdastjóri ESB gefið út orðsendingu um samhæfð efnahagsleg viðbrögð. Í reglunum segir að aðildarríki geti breytt reglunum almennt í þágu fyrirtækja, frestað innheimtu opinberra gjalda og niðurgreitt skammtímaverkefni á öllum sviðum. Þá geti stjórnvöld greitt bætur vegna tjóns sem fyrirtæki verða fyrir með beinum hætti vegna farsóttarinnar. Hér segir einnig í skýrslunni að yfirstandandi ástand hafi leitt til skerts aðgangs að lausafé. Því hafi framkvæmdastjórnin annars vegar og ESA hins vegar lýst því yfir að ákvæði hafi virkjast í sáttmála ESB og EES-samningnum um heimildir til ríkisstuðnings ef kemur til alvarlegrar röskunar á efnahagslífi. Í því sambandi hefur m.a. verið horft til fyrirsjáanlegs samdráttar landsframleiðslu, strangra ráðstafana af hálfu hins opinbera sem tekur til samkoma, skólahalds og fleiri þátta, álags á heilbrigðiskerfi og ferðatakmarkana sem komið hefur verið á víða um heim. Samþykktur hefur verið tímabundinn rammi um ríkisaðstoð til að styðja við efnahagslífið sem gildir út þetta ár, 2021. Þannig að þetta er skýrt í skýrslu ráðherra og upplýsandi á sama tíma.

Þá hefur faraldurinn verið talinn til óvenjulegra atburða í skilningi ákvæða fyrrnefndra samninga, sem heimila ríkjum að bæta fyrirtækjum tjón og tekjutap sem beinlínis orsakast af hamförum og óvenjulegum atburðum.

Að lokum má nefna að ESA setti á laggirnar teymi til að aðstoða EFTA-ríkin innan EES við túlkun ríkisstyrkjareglna og til að bregðast skjótt við fyrirspurnum stjórnvalda.

Að þessu sögðu þá má sjá að samhæfing innan Evrópu hefur verið á ýmsum sviðum, hvort sem um er að ræða aðildarríki Evrópusambandsins eða okkur sem eigum aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, en þó má auðvitað gagnrýna margt varðandi samráð ríkjanna, ekki síst samráðsleysið vegna lokana á landamærum og ýmissa sóttvarnaaðgerða. En eins og ég segi, það er líka auðvelt að vera vitur eftir á, þegar bregðast þarf skjótt við alvarlegum og aðkallandi aðstæðum.

Ráðherrann nefnir í inngangi sínum einnig nokkrar skýrslur sem hann hefur látið vinna fyrir sig um EES-samstarfið og endurbætur á því. Síðasta skýrsla birtist síðla árs 2019, ef ég fer rétt með, en þeim starfshópi var komið á fót að beiðni 13 þingmanna sem vildu fá upplýsingar um kosti og galla aðildar Íslendinga að EES-samningnum. Þessi skýrsla er afar efnismikil og vel unnin. Ég held hún sé um rúmlega 300 blaðsíður og mig langar til að ræða nokkur atriði úr henni. En ég sé að tími minn er að verða búinn, ég ætlaði að segja svo margt. Ég ætla þá að hlaupa hér yfir nokkur atriði.

Með skýrslunni átti meta samninginn út frá ýmsum þáttum. En mig langaði til að nefna að á bls. 46 er áhugaverð frásögn af lífinu fyrir og eftir EES, ef segja má sem svo, sem undirstrikar eflaust hversu mikil áhrif samningurinn hefur haft á tækifæri okkar Íslendinga og stöðu íslenskra fyrirtækja og viðskiptalífs almennt. Með leyfi forseta, langar mig til að lesa stuttan kafla þar sem segir:

„Sameiginlegi markaðurinn hefur reynst Íslendingum vel sé litið til hagvaxtar og nýsköpunar, hann laðar að fjárfesta og ýtir undir alþjóðlega samkeppnishæfni. Markaðurinn skapar einstaklingum einnig rétt til náms, ferðalaga, dvalar og starfa þar sem þeir sjálfir kjósa. Þeir njóta góðs af meira úrvali varnings á hagstæðara verði en ella væri auk þess sem fylgt er skýrum kröfum um persónuvernd og í umhverfismálum, félagsmálum og neytendamálum.

Einn viðmælandi skýrsluhöfunda sagðist hafa farið til náms við þýskan háskóla árið 1983. Þá hefði verið komið fram við íslenska námsmenn eins og íbúa annarra heimsálfa. Krafist var læknisskoðunar, teknar voru röntgenmyndir og þvag- og saursýni. Leggja varð fram ótal vottorð vegna búsetu og skráningar til heimilis í þýskri borg. Þýskunám og sérstakt próf var sett sem skilyrði innritunar í háskóla. Þá kostaði nokkurt umstang að fá þýskt ökuskírteini. Nú væri þetta allt úr sögunni.

Annar viðmælandi sem sinnt hefur vísindarannsóknum og nýsköpun sagði að með EES-samningnum hefðu opnast gáttir í styrktarsjóði Evrópusambandsins sem leiddi til mikilla framfara í rannsóknum og uppbyggingu nýs atvinnulífs á Íslandi. Bylting varð í rannsóknamenntun. Nýsköpunarfyrirtæki urðu til á mörgum sviðum …“

Hæstv. forseti. Mig langar líka til að nefna upplýsingar í skýrslunni sem snúa að afstöðu Íslendinga til samningsins. Sú könnun var gerð af Maskínu árið 2019 og þar kemur fram að aðeins 11% úrtaksins eru fremur eða mjög neikvæð gagnvart samningnum. En það kemur einnig fram að 20% aðspurðra hafi litla sem enga þekkingu á samningnum þannig að við þurfum kannski, þ.e. stjórnvöld, að fræða almenning betur um hvað er í þessum samningi og hvað hann hefur fært okkur. Ofangreind frásögn af lífi námsmanns í Þýskalandi fyrir samning sýnir að samningurinn hefur gerbreytt landslagi almennings og fyrirtækja á Íslandi til hins betra. Það er svo auðvitað okkar, stjórnvalda, að vega og meta einstök atriði samningsins hverju sinni og framkvæmd hans í alla staði með hagsmuni Íslendinga að leiðarljósi.

Mér sýnist af lestri þessarar skýrslu að ráðherra sé mjög meðvitaður um það að stöðugt hagsmunamat þurfi að fara fram og rýni og einnig að við þurfum að vanda framkvæmd samningsins í alla staði, gera okkar allra besta.