151. löggjafarþing — 91. fundur,  6. maí 2021.

utanríkis- og alþjóðamál.

765. mál
[17:34]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir góða umræðu um utanríkismál í dag. Sú skýrsla sem hæstv. utanríkisráðherra kynnti er afar yfirgripsmikil og því af mörgu að taka eins og venjan er. Hún er frábrugðin venjubundnum skýrslum hæstv. ráðherra þar sem heimurinn glímir enn við faraldur af völdum Covid-19. Segja má að heimsfaraldurinn hafi sett samfélög um allan heim á hliðina undanfarin ár en nú sér sem betur fer til sólar. Góður gangur er í bólusetningum um land allt. Sólin skín og sumarið er á næsta leiti.

Við þekkjum ekki til fulls hverjar afleiðingar þess faraldurs verða en við getum þó gert ráð fyrir að efnahagslegar afleiðingar hans verði verulega neikvæðar um heim allan, ekki síst á efnahagslífið og lýðheilsu. Sum fyrirtæki hafa blómstrað í þessu umhverfi og fjarvinna og hægari lífsstíll hefur hentað mörgum. Færri ferðalögum fylgja líka færri kolefnisspor þannig að náttúran hefur notið góðs af. Viðbrögðin við Covid hafa verið mismunandi á milli þjóða enda voru aðstæður fordæmalausar og flóknar en kröfðust á sama tíma skjótrar ákvarðanatöku. Við sjáum það kannski betur nú að ári liðnu hvaða ákvarðanir voru góðar og hverjar síðri. Það er auðvelt að horfa í baksýnisspegilinn og gagnrýna aðgerðir þess tíma. En þetta er verkefni sem við þurfum að leysa saman og til lengri tíma litið þurfum við að nýta reynsluna af faraldrinum til að byggja upp nánara samstarf við nágrannaríki og aðrar vinaþjóðir á vettvangi almannavarna og samfélagsöryggis.

Samstarf norrænna ríkja á tímum faraldursins hefur verið gott. Ráðherrar hafa fundað reglulega, bæði formlega og óformlega, og borgaraþjónustur ríkjanna hafa verið samtaka, ekki síst í upphafi faraldurs, við að koma fólki til síns heima. Skilaboð norrænna ríkja og áherslur hafa verið að standa þurfi vörð um mannréttindi og lýðræði sem eiga undir högg að sækja á tímum kórónuveirunnar. Einnig þau skilaboð að norræn ríki telji mikilvægt að styðja fátækustu ríkin í samstarfi við alþjóðastofnanir og mannúðarsamtök. Það er afar mikilvægt atriði og í skýrslu ráðherra er áherslu á mannréttindi, lýðræði og samstarf við alþjóðastofnanir víða að sjá, sem er vel.

Að þessu sögðu þá hefur Norðurlandaráð ekki látið sitt eftir liggja við að hvetja ráðherra Norðurlanda til nánara samstarfs og hefur gagnrýnt ráðherra Norðurlanda einnig fyrir að bregðast ekki sterklegar við samþykktri tillögu ráðsins um samfélagsöryggi, en hún var samþykkt í nóvember 2019. Stefnan er víðtæk og varðar mörg ólík málefnasvið, m.a. viðbrögð við farsóttum og náttúruhamförum svo eitthvað sé nefnt. Norðurlandaráð telur þéttara samstarf ráðherra og stofnana bæði mögulegt og gagnlegt. Forsætisnefndin hvatti ríkisstjórnir Norðurlanda til að mynda til að innleiða þær tillögur sem lagðar eru fram í stefnunni um samfélagsöryggi og þá sérstaklega tillögur um að ríkisstjórnir Norðurlanda samræmi aðgerðir til að tryggja framboð á mikilvægum lyfjum og öðrum búnaði til lækninga og undirstrika þörfina á uppfærðri norrænni áhættugreiningu og viðbúnaðaráætlun og leggur til að komið sé á fót óháðri norrænni viðbúnaðarnefnd. Þetta samtal var síðan tekið milliliðalaust á fundum Norðurlandaráðs og með ráðherrum Norðurlanda í haust þegar þing Norðurlandaráðs átti að fara fram í Hörpu, en í stað þess var fjöldi fjarfunda haldinn með góðum árangri.

Slagorð norræns samstarfs, Saman erum við sterkari, er lýsandi fyrir hversu mikilvægt það er að við tölum einni röddu inn í alþjóðasamfélagið. Við rekum nú þegar norrænu sendiráðin öll undir sama þaki í Berlín. Ég tel að það væri heillavænlegt fyrir okkur öll hér á Norðurlöndum að fjölfalda það módel, þ.e. að reka fleiri norræn sendiráð undir sama þaki eins og gert er í Berlín. Þannig náum við að taka meira pláss og vera meira áberandi. Rödd okkar þarf að heyrast sem víðast því að okkar grunngildi eiga því miður stöðugt undir högg að sækja, sérstaklega lýðræði, sem við tökum oft sem sjálfsögðum hlut hér á landi, jafnrétti, mannréttindi, staða með réttarríkinu og fleira, og auðvitað eigum við á Norðurlöndum að vinna enn frekar saman að loftslagsmálum.

Ég hef verið svo heppin að fá að heimsækja höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna og átt þar fundi með forsvarsmönnum ýmissa stofnana Sameinuðu þjóðanna og einnig íslenskum fulltrúum sem þar starfa. Mér til mikillar ánægju var upplýst um að óformlegt samstarf á milli norrænna sendifulltrúa væri mjög mikið og það skiptir auðvitað miklu máli.

Hæstv. forseti. Svo ég dragi þetta aðeins saman, þ.e. áhrif og afleiðingar Covid á alþjóðlegt samstarf og efnahagslega viðspyrnu þjóða, þá tel ég einsýnt að þessi reynsla hafi kennt okkur að efla frekar alþjóðlegt samstarf, sér í lagi norrænt, á krísutímum sem og á öðrum tímum. Styrkur okkar og skynsamlegar lausnir felast í samvinnu sem grundvallast á trausti.

Næsti kafli í skýrslu ráðherra fjallar um norðurslóðir, sem er einnig afar mikilvægur þáttur í utanríkisstefnu okkar og margt að gerast þar sem hefur mikið með hagsmuni Íslands að gera. Alþingi hefur ákveðið að norðurslóðastefna skuli byggjast á 19 áhersluþáttum. Þeir lúta m.a. að alþjóðasamstarfi um málefni svæðisins, viðbrögð við neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga, velferð íbúa á norðurslóðum og nýtingu efnahagstækifæra, svo fátt eitt sé nefnt.

Sett var á fót þingmannanefnd sem endurskoða átti norðurslóðastefnuna og hefur skilað henni til Alþingis. Hún er nú til meðferðar hér. Tillögur nefndarinnar miða að því að tryggja hagsmuni Íslands í víðum skilningi með sjálfbæra þróun og friðsamlegt samstarf að leiðarljósi. Alþingi er enn með málið til umfjöllunar, eins og ég sagði áðan.

Nú fer að sneyðast um tímann þannig að maður fer að verða óðamála, hæstv. forseti. Í skýrslu ráðherra er einnig fjallað um skýrslu Grænlandsnefndarinnar. Í henni eru settar fram hugmyndir um hvernig auka megi samstarf Grænlands og Íslands, en löndin eiga nú þegar mikilla sameiginlegra hagsmuna að gæta, svo sem á sviði sjávarútvegs, flugþjónustu, flugumferðar, ferðaþjónustu — ég ætla ekki að telja það allt upp hér en það er í skýrslunni — og auðvitað heilbrigðismál og fleira. Einnig eiga löndin í auknu samstarfi á alþjóðavettvangi þar sem norræna og vestnorræna samvinnu ber hæst, en einnig innan Norðurskautsráðsins.

Ég tek heils hugar undir samantekt umfjöllunar um Grænlandsskýrsluna. Það er mikilvægt að hefja sem fyrst samvinnu um útfærslu á framkvæmd tillagna nefndarinnar með grænlenskum stjórnvöldum, þ.e. þegar Alþingi hefur afgreitt málið, sem ég vona að verði gert á þessu vorþingi. Stærsta skrefið þar að lútandi er fyrirhugaður rammasamningur milli landanna þar sem lýst verði markmiðum á tilgreindum samstarfssviðum að höfðu samráði við helstu hagsmunaaðila.

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins til að koma að fjölþáttaógnum. Umfjöllun um fjölþáttaógnir má finna í skýrslu ráðherra og samantekt um þær aðgerðir og áherslur sem lagðar hafa verið í þessum málaflokki síðustu misserin. Helst ber að nefna að sérstök deild innan öryggis- og varnarmálaskrifstofu ráðuneytisins var sett á fót í nóvember á síðasta ári. Ég fagna því að sú deild hefur verið sett upp og tel að full þörf hafi verið á að stofna slíka deild. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega í hvað deildin á að gera en það segir sig kannski svolítið sjálft. Hún beinir sjónum að netógnum og erlendum fjárfestingum í innviðum eða fyrirtækjum, upplýsingaóreiðu, viðnámsþoli og fleira.

Umræðan um fjölþáttaógnir, svo sem netógnir og netöryggi, verður æ umfangsmeiri í alþjóðlegu samstarfi. Ég heyrði að hv. þm. Olga Margrét Cilia fór einnig yfir þennan lið skýrslunnar. Þessar fjölþáttaógnir einkennast af margvíslegum aðferðum sem beitt er til að ná ákveðnum pólitískum markmiðum. Aðgerðirnar beinast að grunninnviðum, gildum og samheldni lýðræðisríkja með því að nýta kerfislæga veikleika. Þetta er mjög þróað og við erum kannski ekki búin að vera alveg nægilega vel vakandi en við erum komin á skrið. Netárásir, falsfréttir, upplýsingaóreiða, efnahagsþvinganir, fjárfestingar í lykilinnviðum og fyrirtækjum og hagnýting málaliða eru dæmi um aðferðir sem beitt er um skemmri eða lengri tíma með það að markmiði að ýta undir óstöðugleika og grafa undan trausti einstakra ríkja. Aukin umræða er um málaflokkinn á Vesturlöndum og sum ríki hafa orðið fyrir slíkum aðgerðum og á vettvangi alþjóðastofnana, einkum Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins. Í þessu samhengi er því mikilvægt að nefna að Alþingi samþykkti í síðustu fjárlögum að fjármagna aðild Íslands að Öndvegissetri Atlantshafsbandalagsins á sviði netvarna í Tallinn í Eistlandi. Hin Norðurlöndin eiga nú þegar aðild að setrinu og hefur þar orðið til mikil þekking á netvörnum og netöryggismálum.

Þá hefur heimsfaraldurinn dregið fram hvernig mikið magn upplýsinga, bæði réttra og rangra, dreifist hratt og gerir fólki erfiðara um vik að nálgast áreiðanlegar upplýsingar. Það getur valdið klofningi í samfélaginu. Við getum nefnt dæmi um slíkt þegar árásin var gerð á þinghúsið í Washington fyrir ekki svo löngu. Þannig að þessi ógn er raunveruleg og tengist auðvitað þjóðaröryggismálum og vörnum grunninnviða.

Ég hef ekki meiri tíma, hæstv. forseti. Það er skringilegt að fjalla um svo stóra skýrslu á tíu mínútum, það er bara varla hægt. En ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir mjög vandaða skýrslu og góðar umræður hér í dag.