151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

skipulögð glæpastarfsemi.

[14:13]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Þessi umræða er góð og varpar ljósi á margt en kannski ekki endilega nýju ljósi. Við vitum að þetta er vandamál og við þurfum að bregðast við og mér heyrist að fólk, þvert á alla flokka, sé sammála um að við viljum efla löggæslu og bæta umgjörðina enn frekar og til þess að ná árangri þurfum við að vera samstiga. Eins og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir nefndi gildir samvinnan ekki bara hér innan lands á milli stofnana heldur einnig á milli ríkja.

Hæstv. ráðherra nefndi áðan heimildir varðandi brottvísanir brotafólks á landamærum sem hjálpa vissulega til við að draga úr vexti þessarar glæpastarfsemi. Ég ætla að nefna Schengen í þessu sambandi, vera okkar í Schengen er einnig afar mikilvæg. Þar fer fram mikil samvinna og upplýsingamiðlun. Við höfum t.d. nýlega samþykkt heimildir sem gefa okkur aðgang að mjög öflugu upplýsingakerfi sem mun hjálpa okkur verulega í þessum efnum.

Varðandi rannsóknarheimildirnar þá er ég hlynnt því að þær verði auknar og treysti því að þeir sem stýra þeim stofnunum sem fara með slíkar heimildir geri það að sjálfsögðu vel og örugglega og allir ferlar verði vel tryggðir út frá öryggis- og persónuverndarsjónarmiðum.

Mig langar aðeins að koma að netglæpum en þeir eru orðnir alvarlegt vandamál. Mig langaði að nefna öndvegissetrið í Tallinn sem við eigum aðild að. Þar er mikil gróska og upplýsingar og reynsla í þessum efnum sem við munum nú geta nýtt okkur. (Forseti hringir.) Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sjái fyrir sér að löggæslan njóti góðs af þátttöku okkar í öndvegissetrinu.