151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[15:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég heyri að hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson er á móti málinu. Það er allt í lagi. Það eru bara mörg sjónarmið sem tengjast þessu máli og það er náttúrlega þess vegna sem við höfum haft þetta verkefni mjög lengi í okkar höndum, þ.e. að finna farveg fyrir hvernig við getum tryggt starfsumhverfi fjölmiðla á Íslandi og þar með byggt undir opna, upplýsandi og lýðræðislega umræðu til að styrkja okkar lýðræðislega samfélag sem er mjög mikilvægt að halda í. Það er svo sannarlega ekki sjálfgefið. Ég átta mig alveg á hvaðan hv. þingmaður er að koma og virði skoðun hans á málinu.

Varðandi RÚV skipaði hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, eins og hv. þingmaður veit, starfshóp fyrir nokkrum mánuðum sem átti að endurskoða starfsemi RÚV út frá mjög mörgum þáttum, ekki bara auglýsingamarkaðnum. Starfshópurinn, sem sú sem hér stendur á reyndar sæti í, hefur ekki skilað af sér. Ég get þó tekið undir að það er að mínu mati full ástæða til að takmarka það pláss sem RÚV hefur á auglýsingamarkaði. Ég myndi alla vega vilja stíga skref í þá átt. Skattlagning erlendra miðla — ég nefndi akkúrat hér í framsögu minni að meiri hluti nefndarinnar hvetur til þess að farið verði í það verkefni. Ég ætla að svara fleiri spurningum þingmannsins í síðara andsvari.