151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[15:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni fyrir andsvarið og að velta þeirri spurningu upp hvers vegna meiri hlutinn leggi til að stuðningskerfið gildi til 31. desember 2022. Mér þykir miður að ég hafi verið óskýr í ræðu minni áðan. Meginástæðurnar eru í fyrsta lagi Covid, það er nokkuð veigamikil ástæða að við tökum svolítið stöðuna þegar áhrif faraldursins minnka, en ekki síst sú endurskoðun sem á sér nú stað á fleiri sviðum í fjölmiðlaumhverfi á Íslandi og ég nefndi það hér áðan. Meðal annars er vinna í gangi varðandi starfsemi og starfssvið Ríkisútvarpsins. Það verkefni er flókið og sú umræða hefur verið í gangi mjög lengi, svo lengi sem ég man eftir mér og er ég kannski ekki gömul en komin á miðjan aldur. Það er viðfangsefni sem við þurfum samt að halda áfram að ræða og fikra okkur eitthvað áleiðis í. Þó að sú vinna sé í gangi er samt ekki ástæða til að láta allt annað eiga sig á meðan. Ég tel því að þessi lagabreyting styðji við þá leið að markmiðinu sem við viljum fara, þ.e. að styrkja lýðræðislega umræðu á Íslandi og íslenska tungu sem mér og hv. þingmanni er báðum mjög annt um, veit ég. Ég vil einnig nefna endurskoðun á því skattumhverfi sem erlendar efnisveitur búa við hér, þ.e. að við þurfum að fara í þá vinnu og það tekur líka tíma. Valkostirnir voru að sleppa því að gera nokkurn hlut og bíða eftir allri þeirri vinnu eða að fara í málið núna og reyna að afgreiða það og ég vona að við náum því hér á Alþingi.