151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[19:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Ég ætlaði nú ekki að vera þaulsætinn í þessum ræðustól í kvöld en þetta er ekki í fyrsta skipti sem hv. þm. Brynjar Níelsson kveikir aðeins í mér og fyllir mig eldmóði. Þess vegna langaði mig til að fylgja aðeins eftir því sem var rætt hér áðan. Það er þannig að þetta mál, eins og ég drap á áður, er kannski versta leiðin til að fara. Í staðinn fyrir að upphefja þessa nauðungaráskrift sem fylgir okkur alveg út yfir gröf og dauða og gera hana nútímalegri þá er okkur ekki einungis gert, verði þetta frumvarp að lögum, að greiða nauðungaráskrift að Ríkisútvarpinu heldur á almenningur líka að greiða hluta af áskrift Morgunblaðsins þó að hann kaupi það ekki og Kjarnans þó að hann lesi hann ekki. Og svo að ég taki bara dæmi er það þannig að í staðinn fyrir að við neytendur fáum frjálst val um það hvert hluti útvarpsgjaldsins okkar rennur — hvert sem hugur okkar stefnir, Stundin, Stöð 2 eða hvað það er — þá á núna að hengja þessa svokölluðu frjálsu óháðu fjölmiðla á klafa ríkisins og girða þar með fyrir að þeir verði frjálsir og óháðir áfram.

Ég verð því enn einu sinni, frú forseti, að ánýja það sem ég sagði hér áðan. Ég óska þess formlega að þetta mál verði tekið aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. þannig að hægt sé að gaumgæfa óframkomið frumvarp þeirra hv. þm. Óla Björns Kárasonar og Brynjars Níelssonar og að hægt verði að bera saman áhrif af þingmáli okkar Miðflokksmanna við þetta vandræðafrumvarp sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Við verðum einnig að ganga úr skugga um það, frú forseti, hvort það er raunverulegur þingmeirihluti fyrir þessu máli. Í raun og veru skil ég ekki að málið skuli vera komið svona langt. Ég skil í sjálfu sér ekki af hverju það rataði út úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma. Það er mér eiginlega algjörlega hulið. Kannski er andinn í þingflokksherbergi Sjálfstæðismanna bara þyngri en hér í þingsalnum. Menn eru kannski borubrattari og tala frjálsar heldur en þeir myndu gera þar. Nú þekki ég það ekki. Ég er ekki innanbúðarmaður og er ekki á leiðinni þangað. Engu að síður er það með miklum ólíkindum að þetta ágæta mál, eða satt að segja vonda mál, skuli vera komið þetta langt. Við hljótum þess vegna að gera þá kröfu að það verði brotið algerlega til mergjar og við komumst að því í eitt skipti fyrir öll hvort hér sé raunverulegur meiri hluti fyrir því eða hvort það þurfi að taka enn frekari breytingum, líka með tilliti til þess óframkomna máls sem við ræddum áðan.

Það er nefnilega þannig, frú forseti, að akkúrat núna erum við í mikilli deiglu. Satt að segja er líka óskiljanlegt að ríkisstjórnin og hæstv. menntamálaráðherra skuli þá ekki taka á sig rögg og leggja fram þingmál um að erlendar efnisveitur greiði hér einhvern skatt til að jafna leik þeirra gegn þeim sem hér á Íslandi stunda þennan rekstur. Það er í sjálfu sér ekkert nýtt að við reynum að jafna þann hlut. Alls konar atvinnugreinar í landinu eru ofurseldar því að vera í samkeppni við erlent ægivald. Ég gæti t.d. nefnt landbúnaðinn til sögunnar. Hér á Íslandi keppir hann við mjög niðurgreidda landbúnaðarvöru annars staðar frá. Við höfum jú reynt að rétta hlut þeirrar greinar með ákveðnum hætti en þar með er ekki sagt að sá háttur þurfi endilega að ganga yfir alla þá starfsemi sem er í samkeppni við erlenda aðila heldur getum við líka leiðrétt það með því að undanskilja þá erlendu aðila sem hér reyna að hasla sér völl eða taka til baka þau skattfríðindi sem þeir sannarlega búa við í dag. Það væri meiri mannsbragur á því held ég að taka það föstum og alvarlegum tökum.

Ég vil líka taka fram að ég fór upp í þessa pontu, eins og ég sagði í upphafi, vegna þess að hv. þm. Brynjar Níelsson kveikti aðeins í mér. Ég get ekki annað en tekið heils hugar undir með honum þar sem hann talar um að í sjálfu sér sé Ríkisútvarpið sem slíkt nánast stjórnlaust. Í sjálfu sér væri það besta sem við gætum gert til skamms tíma litið kannski að breyta rekstrarforminu aftur, að breyta þessu fyrirtæki úr opinberu hlutafélagi og breyta því aftur í alvöruríkisstofnun, skera það um leið niður í þá stærð sem er hæfileg, eins og maður segir. Það er alveg rétt sem kom fram, t.d. í ræðu hv. þingmanns áðan, að við erum jú að styrkja alls konar menningarstarfsemi. Það er náttúrlega skemmst frá því að segja, og með mikilli virðingu fyrir því, að fyrir hvern þann mann sem sest í Hörpu á sinfóníutónleika eru skattgreiðendur búnir að borga 10.000 kr., í hverjum einasta miða, fyrir hvern einasta rass sem þarna sest, 10.000 kr. á mann. Auðvitað gerum við þetta, við styrkjum þessa starfsemi. Þá þarf náttúrlega að sigta frá og í sjálfu sér þarf að gera á því raunverulega úttekt hvað fellur undir menningarhlutverk Ríkisútvarpsins. Sá sem hér talar getur alveg sagt hug sinn í því að fyrirtæki sem á að sinna menningarhlutverki og hefur í störfum hjá sér starfsmann sem á að gæta að málfari og finnur upp — það er varla að ég vilji segja það úr þessum ræðustól, frú forseti — orðskrípi sem heitir fössari, uppfyllir alls ekki menningarhlutverk sitt, en málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins er stoltur höfundur að þessu orðskrípi og þetta er stofnunin sem á að gæta tungunnar, öðruvísi mér áður brá.

Það vill því miður þannig til að dreifikerfi þessa batterís er ekki heldur upp á það marga fiska að maður geti gengið að því vísu að fá nauðsynlega öryggisþjónustu. Ég hef áður sagt þá sögu hér í þessum stól að þar sem ég var staddur á Fjallabaki syðra, þurfti þar að fara yfir nokkrar óbrúaðar ár og vildi kannski fylgjast með hvort eitthvað væri að gerast, og kveikti á útvarpinu var fyrsta útvarpsstöðin sem kom inn kristilega útvarpsstöðin Lindin. Nú hafði ég svo sem ekkert á móti því að keyra þessa fallegu leið undir guðs orðinu en það var alveg sama hvernig maður leitaði í útvarpinu að útvarp allra landsmanna kom ekki inn. Eins og ég segi kom þessi ágæta kristilega útvarpsstöð inn, ásamt fleiri stöðvum, frjálsum og óháðum.

Við þurfum líka að gæta að því að um leið og við reynum að jafna hlut þessara svokölluðu frjálsu miðla gagnvart því ægivaldi sem er tvennt, þ.e. í fyrsta lagi innlent ríkisútvarp og í öðru lagi erlent vald sem stýrir dreifiveitum, þurfum við að aðgæta það verulega vel hvernig við ætlum að jafna hlutinn án þess að búa til eitthvert skrímsli sem verður óseðjandi og einhverja eilífðarvél sem heldur áfram að hakka fram eftir árum. Og við skattgreiðendur höldum áfram að borga ofan á nauðungaráskrift tap Morgunblaðsins að hluta og hluta af starfsemi annarra miðla. Það er ekki leiðin, frú forseti. Leiðin hlýtur að vera sú að jafna aðstöðumun þessara miðla með skattheimtunni en ekki að seilast eftir því fé í vasa skattgreiðenda. Nóg er nú samt.

Ég vona að beiðni mín um að málið gangi til nefndar verði tekin til greina og ég hlakka raunverulega til að takast á við þetta mál enn einu sinni á þeim vettvangi. Mörgum spurningum er enn ósvarað í þessu máli sem vonandi verður þá hægt að leiða til lykta milli 2. og 3. umr. í nefnd.