151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[19:39]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég og hv. þingmaður erum komnir á það gráa svæði sem reynt var að breyta þingsköpum út af, að menn mættu ekki vera með samsvör. Við erum orðnir alveg dularfullt mikið sammála, ég og hv. þingmaður, enda kemur mér það ekkert á óvart. Hann er búinn að átta sig á því að það er frumkvöðlaeðli í því að taka, eins og hann orðaði það svo vel, þennan millileik í því að leyfa fólki að taka hluta af svokölluðu útvarpsgjaldi og setja það til þeirra fjölmiðla sem þeim best lætur.

Hins vegar er annað sem við þyrftum að gera til að koma á þessum fullkomna samkeppnismarkaði í fjölmiðlum sem hv. þingmaður minnist á og það er ef hæstv. ríkisstjórn, og þar með hv. þm. Sjálfstæðisflokksins, Brynjar Níelsson, hefði borið gæfu til þess að byrja á réttum enda, að byrja á því að slá á skattfrelsið sem erlendar efnisveitur búa við á Íslandi. Það hefði verið mannsbragur að því í staðinn fyrir að opna ríkissjóð eins og krana og láta renna úr honum, maður veit ekki hversu lengi eða hversu mikið, til þessara svokölluðu frjálsu fjölmiðla sem verða þá ekki lengur frjálsir, verða þá ekki lengur óháðir. Hin nálgunin hefði verið langtum betri. Síðan er þetta frumkvöðlamál sem Miðflokkurinn kom fram með, þessi millileikur, að leyfa þeim sem njóta og nota og nýta að ráða hvar þeirra peningum er fyrir komið til að tryggja þann rekstur sem þeir vilja helst sjá.

En ég tek alveg heils hugar undir með hv. þingmanni að við erum kannski sá flokkur sem hefur gengið lengst í því að vilja viðhalda tungu og menningu. Það vill nú svo til að einn af þingmönnum Miðflokksins er stundum forseti þingsins og er þá afar strangur á það að menn beiti íslensku máli. (Forseti hringir.) Dagur íslenskrar tungu er 16. nóvember en allir dagar á Alþingi eru dagar íslenskrar tungu.