151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

694. mál
[22:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svarið. Það er nú þannig að það hafa komið fram ýmsar tillögur um það hvernig megi taka á þessu vandamáli, þ.e. að hér sé ríkisfyrirtæki sem er svo öflugt á hinum almenna markaði að einkareknir fjölmiðlar eiga undir högg að sækja. Það hefur m.a. verið lögð fram og er til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd tillaga Miðflokksins, fyrsti flutningsmaður er hv. þm. Bergþór Ólason, um að fólk geti ráðstafað útvarpsgjaldinu eða nefskattinum og valið hvert það fer, til hvaða fjölmiðla. Svo er þessi ágæta tillaga sem hv. þingmenn eru hér að mæla fyrir. Ég held að það sé mikilvægt að ræða þessi mál öll núna í nefndinni og reyna að komast að einhverri niðurstöðu því að það er einfaldlega ekki boðlegt að fara fram með einhvers konar stuðning til einkarekinna fjölmiðla vitandi það að vandamálið er einmitt að það er samkeppni frá ríkinu frekar en að það skorti endilega fjármuni til þessara fjölmiðla. Ég fagna þessu máli hv. þingmanns og kollega hans, hv. þm. Brynjars Níelssonar.

Vandamálið er vitanlega líka það að ríkið hefur undanfarin ár sýnt töluverða hörku að mínu viti í samskiptum við einkaaðila. Nægir þar að nefna t.d. á heilbrigðissviðinu þar sem einkaaðilar í heilbrigðisþjónustu hafa átt undir högg að sækja, sérstaklega þetta kjörtímabil, vil ég leyfa mér að segja, vegna afstöðu hæstv. heilbrigðisráðherra til einkareksturs.

Síðan vil ég aftur nefna þá staðreynd að nú er verið að veita einhverjar 500 milljónir, eða á að veita, til ríkisháskólanna meðan allir þeir sem veita þjónustu í einkageiranum, hvort sem það eru námskeið eða nám til lengri tíma eða eitthvað sem fellur undir þennan hatt, menntastofnanir, fá ekki krónu. Og nú þetta: Það á að deila fjármunum til einkarekinna fjölmiðla úr vasa ríkisins og það er ekki tekið á stóra vandamálinu sem er samkeppni.